Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1299  —  577. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám vatnalaga, nr. 20/2006, með síðari breytingum, og laga nr. 31/2007, um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, Guðjón Axel Guðjónsson skrifstofustjóra og Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóra frá iðnaðarráðuneytinu, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Sigurð Jónsson frá Landssamtökum landeigenda á Íslandi og Landssamtökum raforkubænda, Aagot Óskarsdóttur lögfræðing, Lúðvík Bergvinsson hdl., Árna Snæbjörnsson, framkvæmdastjóra Bjargráðasjóðs, og Elías Blöndal Guðjónsson frá Bændasamtökunum. Þá bárust umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, Landssambandi veiðifélaga, Landssamtökum landeigenda á Íslandi, Landssamtökum raforkubænda, Landsvirkjun, Orkustofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og Veiðimálastofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að felld verð brott vatnalög, nr. 20/2006, ásamt síðari breytingum sem gerðar hafa verið á þeim lögum, þ.e. með 2. gr. laga nr. 31/2007, lögum nr. 133/2007, 75. gr. laga nr. 167/2007, I. kafla laga nr. 58/2008, lögum nr. 127/2008 og 23. gr. laga nr. 9/2009. Jafnframt er lagt til að lög nr. 31/2007, um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002, verði felld brott.
    Þann 16. mars 2006 voru samþykkt á Alþingi ný vatnalög, nr. 20/2006, en lögunum var ætlað að leysa af hólmi vatnalög, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Skv. 42. gr. þeirra skyldu þau öðlast gildi 1. nóvember 2007 og um leið skyldu gildandi vatnalög, nr. 15/1923, falla úr gildi. Með lögum nr. 133/2007 var gildistöku laganna frestað til 1. nóvember 2008 og með lögum nr. 127/2008 var gildistökunni frestað enn á ný til 1. júlí 2010.
    Fyrir nefndinni var farið vel yfir sögu vatnalöggjafar á Íslandi og þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir henni. Markmiðið með setningu vatnalaga árið 2006 var að samræma ákvæði gildandi vatnalaga annarri löggjöf, sem sett hafði verið á þeim tíma sem liðinn var frá gildistöku þeirra, auk þess sem talið var að einstakir kaflar og einstök ákvæði laganna væru úrelt eða þeim betur fyrir komið annars staðar í lögum. Einnig var talið nauðsynlegt að taka stjórnsýslu vatnamála til endurskoðunar. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi kom upp ágreiningur um breytt ákvæði um eignarráð yfir vatni en frumvarpið gerði ráð fyrir því að réttindi landeiganda yfir vatni á landi hans yrðu orðuð sem eignarréttur og skilgreind með neikvæðum hætti. Neikvæð eignarréttindi fela í sér einkarétt eigandans til að ráða yfir hlutnum með þeim takmörkunum einum sem þeim með réttu eru settar með lögum og takmörkuðum eignarréttindum annarra yfir sama verðmæti. Með öðrum orðum þá fer eigandi með allar þær eignarheimildir sem í eignarréttinum felast nema einhverjar þeirra séu undanskildar, þ.e. beinn eignarréttur. Ákvæði vatnalaga frá 1923 fela hins vegar í sér jákvæða skilgreiningu eignarréttinda. Hún felur í sér að eignarráð fasteignareiganda eru afmörkuð í lögunum sjálfum, með því að tiltekið er hvaða eignarheimildir hann hefur. Af því leiðir að hann hefur ekki á hendi aðrar eignarheimildir en þær sem lögin áskilja honum sérstaklega, þ.e. óbeinn eignarréttur. Þessi ágreiningur varð til þess að kallað var eftir heildstæðri endurskoðun vatnalöggjafar og fól það í sér að gildistöku laganna var frestað til 1. nóvember 2007 og skyldi iðnaðarráðherra skipa nefnd sem kanna skyldi samræmi laganna við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða. Töf varð á því að nefndin væri skipuð og eins og fyrr segir var gildistöku laganna frestað enn á ný til 1. nóvember 2008. Niðurstaða vatnalaganefndar var að rétt væri að gera nokkrar endurbætur á vatnalögunum frá 2006 þar sem ekki þótti tryggt að fullnægjandi tillit yrði tekið til hagsmuna almennings tækju lögin gildi óbreytt. Í kjölfarið voru samþykkt á Alþingi ný lög um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006, sbr. lög nr. 127/2008. Fólu þau í sér að gildistöku laganna var frestað til 1. júlí 2010. Skv. 2. gr. þeirra laga skyldi iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, skipa nefnd sem falið yrði að endurskoða ákvæði laganna og skyldi hún hafa til hliðsjónar tillögur fyrri vatnalaganefndar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þær tillögur sem fyrri vatnalaganefnd setti fram í skýrslu sinni eru það víðtækar að í reynd fela þær í sér breytingu á forsendum vatnalaga, nr. 20/2006, þ.e. að sjónarmiðum um beinan eignarrétt yfir vatni er hafnað og með hliðsjón af þeim viðamiklu breytingum þótti eðlilegra að lagt yrði fram frumvarp til nýrra vatnalaga í stað frumvarps til laga um breytingar á lögum nr. 20/2006. Í ljósi þess sem að framan hefur verið getið er fyrirséð að lög nr. 20/2006 munu aldrei taka gildi. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að með því að afnema gildistöku laganna sé eytt þeirri réttaróvissu sem uppi hefur verið síðastliðin ár. Með afnámi laganna sendir löggjafinn þau skýru skilaboð að ekki standi til að lögin nr. 20/2006 taki gildi heldur muni nýtt frumvarp til heildstæðra vatnalaga taka við af lögum nr. 15/1923. Einnig telur meiri hlutinn rétt að árétta að mikil vinna hefur átt sér stað við undirbúning nýrra vatnalaga og er sú vinna langt á veg komin, því sé ekki ástæða til þess að fresta enn og aftur lögunum frá 2006 heldur sé eðlilegast að fella þau úr gildi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 10. júní 2010.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.