Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 508. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1318  —  508. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Jón Magnússon og Skúla Guðmundsson frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Hauk Ingibergsson frá Fasteignaskrá Íslands, Sigrúnu Jóhannesdóttur og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd.
    Umsagnir um málið bárust frá Eyþingi, Fasteignaskrá Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að sameinuð verði starfsemi Þjóðskrár, sem nú er skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, og Fasteignaskrár Íslands, sem er stofnun sem starfar á ábyrgð dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og undir umsjón þess.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um markmið frumvarpsins um að sameina Þjóðskrá og Fasteignaskrá. Fram kom að um eðlislík verkefni væri að ræða hjá skrifstofunni og stofnuninni og að með sameiningunni fengist faglegur ávinningur sem og fjárhagslegur þegar sameiningarkostnaður hefði verið greiddur.

Fyrirsvar og stjórnun.
    Nefndin fjallaði um 3. gr. frumvarpsins um fyrirsvar og stjórnun Þjóðskrár Íslands og hvort nægilega skýrt væri kveðið á um það í frumvarpinu hvernig því skyldi hagað í hinni nýju stofnun. Í 3. gr. frumvarpsins er tekið fram að hlutverk stjórnar Fasteignaskrár skuli haldast óbreytt en að það nái ekki til starfsemi Þjóðskrár Íslands. Nefndin fjallaði nokkuð um þessa tilhögun en fyrir nefndinni kom fram, og nánar í greinargerð, að í stjórn Fasteignaskrár Íslands sitja fulltrúar þeirra aðila sem greiða hluta rekstrarkostnaðar stofnunarinnar, þ.e. Samtaka íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fjármálafyrirtækja, auk eins fulltrúa sem er skipaður án tilnefningar. Nefndin fellst á tillöguna í frumvarpinu að sú stjórn nái ekki yfir stjórn Þjóðskrár Íslands að sinni en tekur fram að nauðsynlegt sé að unnið verði að endurskoðun laga um þjóðskrá og almannaskráningu og að þar verði kveðið skýrt á um hlutverk og stjórnskipulega stöðu stofnunarinnar. Lög um almannaskráningu voru sett í allt öðru tækniumhverfi en nú er við lýði og því brýnt að endurskoða þau.

Aðskildar skrár og gagnagrunnar.
    Nefndin fjallaði einnig um hvaða áhrif fyrirhuguð sameining hefði á þær skrár og gagnagrunna sem reknar eru hjá Þjóðskrá og Fasteignaskrá. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um það hvort halda ætti gagnagrunnum og skrám aðskildum, en fyrir nefndinni kom fram að ætlunin væri að halda þeim aðskildum. Nefndin telur nauðsynlegt að kveða skýrt á um það og leggur því til að við frumvarpið bætist ný grein, er verði 2. gr., þess efnis að Þjóðskrá Íslands sé ábyrgðaraðili að almannaskráningu og skuli fylgja lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ. á m. um öryggi gagna, fræðslu og tilkynningarskyldu. Halda skuli gagnagrunnum er lúta að almannaskráningu aðskildum frá öðrum skrám ábyrgðaraðila. Þó verði heimilar samkeyrslur til uppfærslna á heimilisföngum. Aðra vinnslu skuli tilkynna til Persónuverndar.

Réttarstaða starfsmanna.
    Nefndin fjallaði einnig um ákvæði til bráðabirgða en þar er lagt til að starfsmenn Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands sem ráðnir hafa verið með ráðningarsamningi skuli halda störfum sínum og starfskjörum. Nefndin vill taka fram að þessi sameining er sérstök að því leyti að verið er að færa störf og starfsmenn úr ráðuneyti yfir til stofnunar en ekki verið að sameina tvær stofnanir í eina. Hér er gert ráð fyrir að hin nýja stofnun taki yfir ráðningarsamninga við starfsmenn Fasteignaskrár Íslands og Þjóðskrár. Það er talið nauðsynlegt svo að sem minnst röskun verði á högum starfsmanna.
    Þá er kveðið á um að skrifstofustjóri Þjóðskrár og forstjóri Fasteignaskrár Íslands skuli við gildistöku laga þessara halda störfum sínum og starfskjörum og að laun og starfskjör skrifstofustjóra Þjóðskrár verði þau sömu og skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu og taki því breytingum í samræmi við ákvarðanir kjararáðs. Nefndin bendir á að ákvæðið er óvenjulega sértækt en fyrir nefndinni kom fram að skrifstofustjóri Þjóðskrár er eini embættismaður Þjóðskrárinnar og ekki ráðinn heldur skipaður til æviloka. Með breytingunni er því raun verið að leggja niður hans starf sem skrifstofustjóra í ráðuneyti og hinni nýju stofnun falið að taka við starfi hans. Hann á að halda því og þeim starfskjörum sem hann hefur haft sem skrifstofustjóri í ráðuneyti. Nefndin tekur fram að með þessari breytingu verður hann ekki lengur embættismaður í skilningi starfsmannalaganna. Þá er í ákvæðinu einnig gert ráð fyrir að forstjóri Fasteignaskrár Íslands verði forstjóri Þjóðskrár Íslands, en hann er embættismaður sem skipaður er tímabundið til fimm ára. Nefndin fellst á að eðlilegt sé að starfsmenn haldi starfskjörum sínum samkvæmt ráðningarsamningum hjá hinni nýju stofnun sem og þeir embættismenn sem skipaðir hafa verið. Nefndin telur engu síður nauðsynlegt að leggja til að bráðabirgðaákvæði frumvarpsins orðist svo: Starfsmenn Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, sem eru í starfi við gildistöku laganna, verða starfsmenn Þjóðskrár Íslands með sömu starfskjörum og áður giltu. Um réttarvernd starfsmanna til starfa hjá Þjóðskrá Íslands fer eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

Lagatæknilegar breytingar.
    Loks fjallaði nefndin um 1. gr. frumvarpsins sem kveður á um sameiningu Þjóðskrár, sem rekin er sem skrifstofa í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, og Fasteignaskrá, sem er stofnun, í eina ríkisstofnun. Nefndin telur að texti greinarinnar sé of tyrfinn og leggur því til að hann verði gerður einfaldari og skýrari. Þá leggur nefndin einnig til að við 1. gr. bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að dómsmála- og mannréttindaráðherra fari með fyrirsvar laganna.
     Nefndin fjallaði einnig um ákvæði 2. gr. þar sem kveðið er á um að við gildistöku laganna taki Þjóðskrá Íslands við eignum og skuldbindingum Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands. Sama gildi um ónýttar fjárheimildir eða skuldir beggja aðila í fjárlögum fyrir árið 2010. Nefndin telur eðlilegt að þessi grein verði hluti af 4. gr. sem kveður á um gildistöku laganna 1. júlí 2010.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Birgir Ármannsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Mörður Árnason, Vigdís Hauksdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 9. júní 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.



Valgerður Bjarnadóttir.


Ögmundur Jónasson.


Þráinn Bertelsson.