Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1327  —  577. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám vatnalaga, nr. 20/2006, með síðari breytingum, og laga nr. 31/2007, um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði brott vatnalög, nr. 20/2006, ásamt síðari breytingum sem gerðar hafa verið á þeim lögum, þ.e. með 2. gr. laga nr. 31/2007, lögum nr. 133/2007, 75. gr. laga nr. 167/2007, I. kafla laga nr. 58/2008, lögum nr. 127/2008 og 23. gr. laga nr. 9/2009. Jafnframt er lagt til að lög nr. 31/2007, um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002 verði felld brott.
    Hinn 16. mars 2006 voru samþykkt á Alþingi ný vatnalög, nr. 20/2006. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi kom upp ágreiningur um breytt eignarráð á vatni en frumvarpið gerði ráð fyrir því að réttindi landeiganda yfir vatni á landi hans yrðu styrkt. Ágreiningurinn varð til þess að kallað var eftir heildstæðri endurskoðun vatnalöggjafar og fól það í sér að lögunum var frestað til 1. nóvember 2007 og skyldi iðnaðarráðherra skipa nefnd sem kanna skyldi samræmi laganna við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða. Töf varð á því að nefndin yrði skipuð og eins var gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, frestað enn á ný til 1. nóvember 2008. Niðurstaða vatnalaganefndar var að rétt væri að gera nokkrar endurbætur á vatnalögunum frá 2006 þar sem ekki þótti tryggt að fullnægjandi tillit yrði tekið til hagsmuna almennings tækju lögin gildi óbreytt. Í kjölfarið voru samþykkt á Alþingi ný lög um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006, sbr. lög nr. 127/2008. Fólu þau í sér að gildistöku vatnalaga yrði frestað til 1. júlí 2010. Skv. 2. gr. þeirra laga skyldi iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, skipa nefnd sem falið yrði að endurskoða ákvæði laganna og skyldi hún hafa til hliðsjónar tillögur vatnalaganefndar. Því var skipuð ný nefnd og nú án tilnefningar frá stjórnarandstöðu.
    Fyrir liggur að drög að frumvarpi til nýrra vatnalaga eru til meðferðar í iðnaðarráðuneytinu og fékk iðnaðarnefnd fyrst að sjá þau drög í tölvupósti 9. júní sl. Ekki fór fram nein kynning á frumvarpinu fyrir nefndinni. Óskað var eftir því að sérfræðingur í auðlindamálum kæmi fyrir nefndina og fjallaði m.a. um ný frumvarpsdrög en meiri hluti nefndarinnar taldi ekki unnt að bíða eftir því.
    Meðan lög nr. 20/2006 taka ekki gildi er ljóst að lögin frá 1923 gilda og dómaframkvæmd mun því taka mið af þeim nú sem fyrr. Miður er að meiri hlutinn skuli kjósa að rjúfa þá sátt sem gerð var um frestun gildistöku vatnalaga þar til nýtt frumvarp væri komið fram en það var einmitt ein meginniðurstaða vatnalaganefndar 1, að bíða ætti eftir nýju frumvarpi. Því telur 2. minni hluti það brot á sátt um frestun að ekki skuli fjallað um eða a.m.k. lagt nýtt frumvarp fyrir þingið. 2. minni hluti lagði jafnframt til að stjórnmálaflokkarnir næðu samkomulagi um lokafrestun á málinu, t.d. til ársloka 2010, og þannig yrði frá því gengið að ekki yrði um frekari frestanir. Var það lagt fram í trausti þess að nýtt framvarp kæmi fram í haust og til þess að áfram yrði pólitísk sátt um málið meðan enn væri unnið í því.
    Annar minni hluti lagði til að gildistöku laga nr. 20/2006 yrði enn frestað og nú til ársloka 2010. Lokið yrði við gerð nýs frumvarps og það lagt fyrir Alþingi nú í haust. Með því mætti hafa þokkalega sátt um málsmeðferðina í stað þess að þvinga þetta umdeilda mál í gegn rétt fyrir frestun Alþingis.
    Harmar 2. minni hluti þessi vinnubrögð meiri hlutans og lýsir furðu á því að meiri hlutinn skuli kjósa að skapa ósátt um málið í stað þess að vinna halda þeirri sátt sem um það getur ríkt.

Alþingi, 11. júní 2010.



Gunnar Bragi Sveinsson.