Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1421  —  670. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Markús Sigurbjörnsson, formann réttarfarsnefndar. Markmið frumvarpsins er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Nefndin fól réttarfarsnefnd að vinna drög að breytingum á frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra um sama efni (þskj. 950, 560. mál) og vann á grundvelli þeirra draga frumvarpið um greiðsluaðlögun einstaklinga sem hún veitir nú álit á. Þegar málinu var vísað til nefndarinnar eftir 2. umræðu sendi nefndin frumvarpið að nýju til réttarfarsnefndar til yfirlestrar og leggur nú til breytingar í samræmi við athugasemdir og tillögur réttarfarsnefndar.
    Nefndin ræddi talsvert meðferð krafna annars vegar þegar samningur um greiðsluaðlögun kemst á og hins vegar þegar ekki næst samningur og málið fer í farveg þvingaðrar greiðsluaðlögunar í samræmi við 18.–20. gr. frumvarpsins. Lagði nefndin áherslu á að meðferð krafna væri með samræmdum hætti svo að kröfuhafar hefðu ekki kerfisbundið hagræði af því að synja um samning og þvinga fram nauðasamning og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Beindi nefndin m.a. sjónum sínum að því að samkvæmt frumvarpinu ættu veðkröfur umfram matsverð eignar að greiðast með samningskröfum en slík regla væri ekki til staðar samkvæmt lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Á fundi nefndarinnar með formanni réttarfarsnefndar var þessum sjónarmiðum komið á framfæri. Taldi hann skýrt að þegar unnið væri að greiðsluaðlögun skv. 18.–20. gr. væri byggt á þeirri vinnu sem þegar hefði farið fram og frumvarpi því sem var til grundvallar greiðsluaðlögunarumleitunum nema rík sanngirnissjónarmið hnigju að breytingum þar á og hægt væri að ráðstafa meiru til lánardrottna án þess að ganga á framfærslu skuldara og eftir atvikum fjölskyldu hans. Nefndin telur því vert að árétta að kröfuhafar sem synja um samning um greiðsluaðlögun án þess að hafa af því lögvarða hagsmuni eiga því ekki von á betri rétti eða kjörum í nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, auk þess sem unnt er að dæma þeim málskostnað til samræmis við lög um meðferð einkamála. Við gerð frumvarpa skv. V. kafla frumvarpsins skal umsjónarmaður því taka mið af frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun og meðhöndla kröfur með sama hætti.
    Nefndin fór yfir hlutverk umsjónarmanns og hvenær hann hefur lokið hlutverki sínu en fram höfðu komið þau sjónarmið fyrir nefndinni að þetta væri ekki nægilega skýrt. Áréttar nefndin því að falli greiðsluaðlögunarumræður niður skv. 15. gr. er hlutverki umsjónarmanns lokið og eins ef samningar nást um greiðsluaðlögun í samræmi við 17. gr. eða málið færist í farveg annarra laga í samræmi við ákvæði 18.–20. gr. Sé þörf á frekari afskiptum eða aðstoð eftir að hlutverki umsjónarmanns lýkur kemur slíkt í hlut umboðsmanns skuldara. Leggur nefndin því til breytingar þessu til samræmis þannig að það verði umboðsmaður skuldara en ekki umsjónarmaður sem skuli áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt greiðsluaðlögun sjá til þess í tæka tíð að skuldari komi því til leiðar að fjármálafyrirtæki miðli fyrir hann greiðslum samkvæmt henni, sbr. 21. gr. Þá komi það í hlut umboðsmanns skuldara að ráðstafa fé sem lagt hefur verið til hliðar vegna umdeildra krafna í samræmi við 22. gr. Að auki er rétt að árétta að standi til að selja eignir en það er ekki gert á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana tekur umboðsmaður við slíkri umsýslu hafi hún ekki verið falin öðrum. Þá kemur það í hans hlut að ráðstafa þeim fjármunum sem koma til vegna sölu eigna eftir að umsjónarmaður hefur lokið störfum.
    Nefndin ræddi allnokkuð heimild þeirra sem búsettir eru erlendis til greiðsluaðlögunar. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er ekki gerð krafa um lögheimili hérlendis sé leitað samnings um greiðsluaðlögun enda er um frjálsa samninga að ræða. Náist ekki samningur og skuldari leitar nauðasamnings til greiðsluaðlögunar kemur fram í greinargerð frumvarpsins að gert sé að skilyrði að skuldari hafi lögheimili á Íslandi. Þar sem ekki eru í gildi samningar við erlend ríki um gagnkvæma viðurkenningu nauðasamninga til greiðsluaðlögunar mundi nauðasamningur um greiðsluaðlögun því ekki koma í veg fyrir að lánardrottnar gætu sótt kröfu sína fyrir dómstóli þar sem lögheimili skuldara er. Þá leggur nefndin áherslu á að greiðsluaðlögun sé ekki ætlað að ná til skuldbindinga sem stofnast hafa erlendis, enda er m.a. gert ráð fyrir því í 10. gr. að kröfur séu innkallaðar í Lögbirtingablaði og ekki er hægt að leggja þá skyldur á erlenda kröfuhafa að þeir lesi það. Að auki gæti slíkt lagt þunga rannsóknarskyldu á umboðsmann skuldara. Í ljósi þessa telur nefndin vert að afmarka nánar skilyrði greiðsluaðlögunar og leggur því til þá breytingu að almennt verði gert að skilyrði að einstaklingur eigi lögheimili á Íslandi. Frá þeirri reglu megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda, enda leiti hann greiðsluaðlögunarinnar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili. Þá er einnig unnt að víkja frá reglunni ef greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíla á fasteign hér á landi, enda sé eigandi hennar íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda.
    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um markmið laganna og segir í 2. mgr. að einstaklingum sem uppfylla skilyrði laganna sé heimilt í samræmi við ákvæði þeirra að leita eftir samningum um greiðsluaðlögun við kröfuhafa sína. Til skýringa er lagt til að við málsgreinina bætist að slíkur samningur geti bæði tekið til veðkrafna og samningskrafna eða einungis til annarrar hvorrar tegundar krafna.
    Þá leggur nefndin til breytingu á h-lið 1. mgr. 3. gr. þar sem kröfur vegna áfallandi meðlags og lífeyris eru kröfur sem verða til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin til greina og falla því undir a-lið ákvæðisins. Að auki er lögð til breyting á f-lið til að auka skýrleika.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um matskennd atriði í texta frumvarpsins enda hafði hún við vinnslu þess lagt áherslu á að reyna að draga úr matskenndum atriðum og auka skýrleika frumvarpsins og samræmda beitingu lagareglna.
    Í 2. mgr. 4. gr. er kveðið á um að meðal upplýsinga sem fylgja skuli með umsókn skuli vera upplýsingar um maka og heimilisfólk sé slíks þörf til að afmarka upplýsingar um útgjöld og tekjur skuldara. Ljóst er að framkvæmdin getur verið flókin enda oft ekki hægt að meta hvort þörf er á upplýsingunum fyrr en þær liggja fyrir. Leggur nefndin því til að síðari hluti ákvæðisins falli brott og skylt verði að upplýsingar um maka og heimilisfólk fylgi með umsókn. Þá áréttar nefndin að í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um að umsókn skuldara um greiðsluaðlögun skuli fylgja sundurliðaðar upplýsingar um eignir er átt við skráðar sem og óskráðar eignir. Þar skuli því tiltaka ýmsa óskráða og verðmæta lausafjármuni.
    Rætt var sérstaklega um störf umsjónarmanna og kostnað við störf þeirra og telur nefndin vert að árétta að þeir umsjónarmenn sem ekki eru starfsmenn umboðsmanns skuldara, sbr. 9. gr. frumvarpsins, eru ekki ráðnir inn sem starfsmenn stofnunarinnar heldur er gerður við þá þjónustusamningur í samræmi við 2. gr. frumvarps til laga um umboðsmann skuldara (562. mál). Þá telur nefndin mikilvægt að til fyllingar laganna setji umboðsmaður skuldara umsjónarmönnum verklagsreglur sem tryggi samræmd vinnubrögð og gagnsæi við vinnu umsjónarmanna. Leggur nefndin því til nýtt ákvæði þess efnis.
    Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að þegar umsókn skuldara um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt hefjist tímabundin frestun greiðslna sem felur m.a. í sér að skuldara sé veittur frestur á að greiða af skuldum. Þá er til að mynda kveðið á um það að óheimilt sé að gera fjárnám í eigum skuldara eða selja þær nauðungarsölu. Benti réttarfarsnefnd á að við upptalningu væri eðlilegt að bæta við að ekki mætti heldur gera kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans og brýnt að lánardrottnar geti ekki gert kröfu um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta meðan á frestun greiðslna stendur. Leggur nefndin til breytingar því til samræmis. Að auki lagði réttarfarsnefnd til að b-liður sem kveður á um að ekki megi skuldajafna kröfu falli brott enda sé þegar í 3. gr. kveðið á um hvaða kröfum megi skuldajafna. Leggur nefndin því að auki til þá breytingu.
    Í 14. gr. frumvarpsins er kveðið á um að umsjónarmaður skuli meta verðmæti þeirra eigna skuldara sem hann heldur eftir. Um er að ræða nokkuð mikilvægan þátt í greiðsluaðlögun enda byggt á þessu mati þegar ákvarðað er hvaða hluti veðkrafna greiðist sem óveðtryggðar kröfur, sbr. 21. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er lagt til að lánardrottinn geti á eigin kostnað óskað mats sérfræðings fallist hann ekki á mat umsjónarmanns og umsjónarmaður geti þá eftir atvikum endurmetið verðmæti eignanna eða staðfest fyrra mat. Með þessu eru umsjónarmanni gefnar nokkuð frjálsar hendur við verðmatið og þarf að meta hverju sinni hvort hann fari eftir sérfræðimati sem lánardrottinn hefur aflað. Í samræmi við þá áherslu nefndarinnar að auka skýrleika frumvarpsins og draga úr matskenndum atriðum leggur nefndin til að vilji lánardrottinn ekki una verðmati umsjónarmanns geti hann á eigin kostnað fengið dómkvaddan mann til að meta verðmæti eignar sem skuli þá ráða niðurstöðu um verðmæti hennar. Þar sem matið er bindandi fyrir aðila máls þótti nefndinni rétt að gera ríkari kröfur og er því kveðið á um dómkvaddan matsmann.
    Sú breyting sem nefndin leggur til á 20. gr. frumvarpsins helst nokkuð í hendur við breytingar sem nefndin leggur til á frumvarpi nefndarinnar um breytingar á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, sbr. nefndarálit um 671. mál. Breytingunni er m.a. ætlað tryggja að sé leitað greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á grundvelli 20. gr. dugi ákvörðun umsjónarmanns um að heimila skuli skuldara að leita hennar og ekki þurfi dómsúrskurð eins og kveðið er á um í lögum nr. 50/2009. Um áframhald máls fer svo samkvæmt þeim lögum.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 21. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til breyting sem ætlað er að skýra hvernig greiða skuli af veðkröfum og er í því tilliti vísað til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 sem hefur að geyma ítarlega útlistun á því hvernig greitt skuli í samræmi við veðrétt af áhvílandi veðkröfum við greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Í öðru lagi er lögð til sú breyting að í stað orðsins „húsaleigu“ komi „leigu“ enda getur verið veðréttur í fleiri eignum en fasteignum. Í þriðja lagi er svo lögð til sú breyting að um afnám veðskulda fari eftir 12. gr. laga nr. 50/2009 þannig að samræmi sé um meðferð veðkrafna umfram matsverð eignar. Þannig geti skuldari þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar, en áður en það er á enda, leitað eftir því að veðbönd verði máð af fasteigninni sem eru umfram söluverðmæti fasteignarinnar, sé m.a. sýnt að hann verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum en geti þó staðið í skilum með það sem eftir standi. Áréttar nefndin að þó svo að það sé ekki tekið fram í ákvæðum 12. gr. laga nr. 50/2009 getur skuldari leitað aðstoðar og leiðbeininga hjá umboðsmanni skuldara sé hann í greiðsluerfiðleikum á þessum tímapunkti og þurfi frekari aðstoðar við. Nefndin leggur að auki til breytingu á 29. gr. frumvarpsins til samræmis við breytingar á 21. gr.
    Nefndin leggur að auki til breytingar á 25. gr. þess efnis að samningur um greiðsluaðlögun falli sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta. Lögð er til breyting á heiti ákvæðisins til samræmis.
    Í 26. gr. er kveðið á um málsmeðferð vegna breytinga, riftunar eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun. Vilji aðili ekki una ákvörðun umboðsmanns skuldara um breytingu eða synjun á breytingu getur hann kært hana til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Vilji aðili ekki una úrskurði kærunefndar er eðlilegt að hann geti höfðað dómsmál til ógildingar og til að taka af allan vafa um að slíkt sé heimilt leggur nefndin til breytingu þess efnis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 23. júní 2010.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Guðbjartur Hannesson.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásmundur Einar Daðason.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.


Ögmundur Jónasson.