Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1422  —  670. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



     1.      Við 1. gr. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sá samningur getur bæði tekið til krafna sem tryggðar eru með veðrétti í eign skuldara og krafna sem engin slík trygging er fyrir eða einungis til krafna af öðrum hvorum meiði.
     2.      Við 2. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Þeir einir geta leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum þessum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu skilyrði má þó víkja ef:
                  a.      sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda, enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili, eða
                  b.      greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíla á fasteign hér á landi, enda sé eigandi hennar íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „staðgreiðslu“ í f-lið 1. mgr. komi: opinberra gjalda.
                  b.      Í h-lið 1. mgr. falli niður orðin: áfallandi meðlags og lífeyris sem skuldara ber að greiða samkvæmt hjúskapar- eða barnalögum sem og.
     4.      Við 4. gr. Orðin „ef slíks er þörf til að afmarka upplýsingar um útgjöld og tekjur skuldara“ í 2. mgr. falli brott.
     5.      Við 11. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr.:
              a.      B-liður falli brott.
              b.      D-liður, sem verði c-liður, orðist svo: gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu.
              c.      Við bætist nýr stafliður sem verði d-liður, svohljóðandi: fá bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta.
     6.      Við 14. gr. 2. mgr. orðist svo:
             Lánardrottinn sem ekki unir við mat sem umsjónarmaður aflar getur á eigin kostnað fengið dómkvaddan mann til að meta verðmæti eignar. Sé slíkrar matsgerðar aflað skal hún ráða niðurstöðu um verðmæti eignarinnar.
     7.      Við 20. gr. Síðari málsliður orðist svo: Um framhald máls fer samkvæmt því sem mælt er fyrir um í þeim lögum án þess að dómsúrskurður gangi um heimild til greiðsluaðlögunar, en umsjónarmaður sem skipaður hefur verið skv. 9. gr. skal gegna hlutverki umsjónarmanns eftir reglum þeirra laga.
     8.      Við 21. gr.
                  a.      1. málsl. a-liðar 1. mgr. orðist svo: Ef skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem eru innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar og skal þeim varið til greiðslu krafna eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
                  b.      Í stað orðsins „húsaleigu“ í 2. og 3. málsl. a-liðar 1. mgr. komi: leigu.
                  c.      6. málsl. a-liðar 1. mgr. orðist svo: Þegar minna en þrír mánuðir eru til loka tímabils greiðsluaðlögunar en áður en það er á enda getur skuldari leitað eftir því að veðbönd verði máð af fasteign eftir reglum 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, enda sé fullnægt öllum almennum skilyrðum fyrir þeirri aðgerð samkvæmt þeim lögum.
                  d.      Í stað orðsins „Umsjónarmaður“ í 3. mgr. komi: Umboðsmaður skuldara.
     9.      Við 22. gr. 3. málsl. orðist svo: Ef ekki eru gerðar ráðstafanir, með málshöfðun eða öðrum aðgerðum, til þess að fá skorið úr gildi kröfunnar innan sex mánaða frá því að samningur um greiðsluaðlögun komst á skal umboðsmaður skuldara skipta fjármununum milli þeirra lánardrottna sem samningurinn nær til.
     10.      Við 25. gr.
                  a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Samningum um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans.
       b.      Í fyrirsögn greinarinnar falli brott orðin „að kröfu lánardrottins“.
     11.      Við 26. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Að fengnum úrskurði nefndarinnar er heimilt að höfða einkamál til ógildingar á ákvörðuninni.
     12.      Við 29. gr. Greinin orðist svo:
             Þegar greiðsluaðlögunartímabili er lokið getur skuldari gegn framvísun samnings um greiðsluaðlögun og yfirlýsingar umboðsmanns skuldara um að greiðsluaðlögun sé lokið krafist aflýsingar athugasemdar skv. 1. mgr. 28. gr.
     13.      Á eftir 33. gr. komi ný grein ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Verklagsreglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar.


             Umboðsmaður skuldara setur verklagsreglur um framkvæmd greiðsluaðlögunar sem ráðherra staðfestir og birta skal opinberlega.