Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 672. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1424  —  672. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



     1.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. komi tveir nýir málsliðir sem orðist svo: Einstaklingur sem á tímabilinu 1. janúar 2006 til 1. nóvember 2008 festi kaup á fasteign, óháð byggingarstigi hennar, og átti á sama tíma fasteign sem hann hafði ekki selt getur lagt inn skriflega umsókn til umboðsmanns skuldara um eignaráðstöfun á annarri af þessum fasteignum, enda hafi þær báðar verið óslitið í hans eigu frá tilgreindu tímamarki. Heimilt er að veita einstaklingi undanþágu frá fyrra tímamarki ef sérstaklega stendur á.
                  b.      Í stað orðanna „og hverjir eiga þar lögheimili“ í 2. tölul. 4. mgr. komi: hverjir eiga þar lögheimili og hvorri þeirra skuldari vilji halda eftir.
                  c.      Á eftir 5. mgr. komi ný málsgrein sem orðist svo:
                      Verði umsókn um eignaráðstöfun samþykkt skal umboðsmaður skuldara endurgreiða skuldara kostnað vegna verðmats eigna.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      2. málsl. 2. mgr. orðist svo: Umsjónarmaður skal fá þinglýst athugasemd um samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn skuldara um eignaráðstöfun á þær fasteignir sem hún nær til.
                  b.      Á eftir 2. mgr. komi fimm nýjar málsgreinar sem orðist svo:
                      Skuldari skal í samráði við umsjónarmann velja hvaða eign hann vill leitast við að halda eftir.
                      Þegar endanlega er ráðið hvorri fasteigninni skuldari leitast við að halda eftir skal umsjónarmaður gera samantekt um veðskuldir sem hvíla á hvorri þeirra og skal þar tekið mið af uppreiknuðum eftirstöðvum hverrar veðskuldar að viðbættum áföllnum vöxtum, vanskilum og kostnaði sem af þeim kann að leiða.
                      Ef fasteignin sem ráðstafa á er ekki veðsett fyrir 100% af verðmati hennar skal umsjónarmaður gefa þeim sem eiga veðréttindi fyrir kröfum sínum í hinni fasteigninni kost á að flytja þau að hluta eða fullu yfir á þá fyrrnefndu. Vilji fleiri veðhafar neyta þess kosts en veðrými er fyrir á fasteigninni sem á að ráðstafa skal skuldara gefið færi á að velja hvaða skuldir verði fluttar, en ella skal það ráðast af aldri veðréttinda.
                      Ef í ljós kemur að á fasteigninni sem ráðstafa á hvíli veðbönd fyrir hærri fjárhæð en nemur verðmati hennar skal umsjónarmaður gefa þeim sem eiga veðréttindi utan þeirra marka kost á að færa þau að hluta eða fullu yfir á fasteignina sem skuldari vill halda eftir. Veðréttindi sem þannig flytjast skulu koma að baki þeim sem hvíla fyrir á fasteigninni og raðast þar innbyrðis á sama hátt og þau stóðu áður í veðröð.
                      Nú hefur veðhafi tryggingarbréf með veði í fasteigninni sem ráðstafa á til tryggingar kröfum sínum og bréfið tiltekur ekki hvaða einstöku fjárskuldbindingum veðinu er ætlað að tryggja. Skal veðhafi þá gefa út yfirlýsingu til umsjónarmanns um hvaða tilteknu fjárskuldbindingar veðið tryggir.
                  c.      3. mgr. orðist svo:
                      Að því gerðu sem í 3.–7. mgr. segir skal umsjónarmaður í samráði við skuldara gera frumvarp til eignaráðstöfunar þar sem greint er frá verðmæti beggja fasteignanna, hverjar skuldirnar eru sem hvíla á hvorri þeirra, við hverja þær eru og við hvaða heimild þær styðjast, hver staða þeirra er í veðröð, hver núverandi fjárhæð þeirra er, sundurliðuð annars vegar í vanskil og hins vegar ógjaldfallinn þátt þeirra, svo og hvenær og hvað skuldari verður að greiða í afborganir og vexti af því sem ógjaldfallið er ef ekki kemur til eignaráðstöfunar.
                  d.      4. mgr. falli brott.
     3.      5. gr. orðist svo:
                      Veðkröfur á hvorri fasteign fyrir sig skulu ekki færðar á milli þeirra nema um það semjist skv. 4.–6. mgr. 4. gr.
                      Kröfur á hendur skuldara sem njóta veðréttinda sem fylgja fasteign þegar henni er ráðstafað til veðhafa, sbr. 6. og 7. gr., falla niður gagnvart skuldara þar sem ráðstöfunin telst fullnaðargreiðsla af hans hálfu.
                      Ef samanlögð fjárhæð veðkrafna á þeirri eign sem ráðstafa skal til veðhafa er lægri en 100% af verðmati hennar skal umsjónarmaður finna mismun uppreiknaðra eftirstöðva veðskulda á þeirri fasteign og 100% af verðmati hennar. Skal sá mismunur nefndur eignarhlutur skuldara. Umsjónarmaður skal gera tryggingarbréf með veði og uppfærslurétti fyrir fjárhæðinni sem svarar til eignarhlutar skuldara. Tryggingarbréfið skal vera á nafni skuldara, sem verður eigandi þess, og skal krafa hans bera sömu vexti og verðtryggingu og almenn fasteignalán Íbúðalánasjóðs. Tryggingarbréfið skal við útgáfu þess standa aftast í veðröð á þeirri fasteign sem ráðstafa á, en færast fram í veðröð að teknu tilliti til niðurstöðu skv. 3. mgr. 6. gr. um hvort veðréttindi verði afmáð sökum þess að veðhafi nýtir sér ekki rétt til að fá eignina leysta til sín. Í tryggingarbréfinu skal kveðið á um að sá veðhafi sem fær fasteigninni ráðstafað til sín skuli við sölu hennar ávallt leitast við að ráðstafa henni á markaðsverði og leita hæstu tilboða. Við söluna skal veðhafinn ráðstafa til skuldara þeim hluta af söluverði sem er umfram það sem þarf til að greiða rétthærri veðskuldir og endurgreiða veðhafanum veðskuldir sem hann kann að hafa leyst til sín, allt þar til uppreiknaðar eftirstöðvar tryggingarbréfsins hafa þannig verið greiddar. Eftir sölu fasteignarinnar og ráðstöfun söluverðs skal tryggingarbréfið máð af henni þótt söluverðið hafi ekki hrokkið fyrir að greiða eignarhluta skuldara að nokkru leyti eða öllu.
     4.      Við 6. gr.
                  a.      Í stað orðsins „enda“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: og.
                  b.      Í stað orðanna „dómkvaddra manna“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: dómkvadds manns.
                  c.      Í stað orðanna „frestun meðferðar málsins“ í 3. málsl. 2. mgr. komi: frest.
                  d.      3. mgr. orðist svo:
                      Umsjónarmaður skal á fundinum fyrst gefa þeim veðhafa sem stendur aftast í réttindaröð í þeirri fasteign sem ráðstafa á kost á að leysa hana til sín með því að taka yfir allar skuldbindingar við rétthærri veðhafa eins og þær þá standa og skyldur samkvæmt tryggingarbréfi fyrir eignarhlut skuldara, sé um það að ræða. Vilji veðhafinn ekki nýta sér þennan kost falla veðréttindi hans niður og skal þessu næst gefa þeim veðhafa sem næstur honum stendur kost á því að leysa til sín eignina með sömu kjörum. Skal svo ef með þarf haldið áfram á þennan hátt koll af kolli. Sá samningsveðhafi sem fremstur stendur er að öllum öðrum frágengnum skyldugur til að leysa til sín eignina gegn því að greiða kröfur sem lögveðréttindi honum fremri kunna að vera fyrir. Að fenginni niðurstöðu ber þeim veðhafa sem leysir eignina til sín að gera innan tveggja vikna allar nauðsynlegar ráðstafanir til að fá eignarrétt að fasteigninni færðan til sín, þar á meðal að leggja fyrir umsjónarmann nauðsynleg skjöl í því skyni.
                  e.      4. mgr. falli brott.
                  f.      5. mgr. orðist svo:
                      Umsjónarmanni er heimilt að fresta veðhafafundi í skamman tíma og eigi lengur en tvær vikur, án auglýsingar, ef hann telur að slík frestun geti leitt til samnings um ráðstöfun eignar.
     5.      Við 7. gr.
                  a.      1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Í samræmi við niðurstöðu veðhafafundar, sbr. 6. gr., skal umsjónarmaður gera nauðsynlegar breytingar á veðréttindum, svo sem afmáningu þeirra í því tilviki að veðhafi kýs að nýta ekki rétt sinn til að leysa eignina til sín.
                  b.      Í stað orðanna „samkvæmt þessum kafla“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: samkvæmt lögum þessum.
                  c.      Í stað orðanna „standa að baki þeim veðréttindum“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: njóta veðréttinda.
                  d.      Í stað orðanna „6. og 7. mgr. 8. gr.“ í 3. mgr. komi: 6. mgr. 8. gr.