Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 652. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1445  —  652. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétu Gunnarsdóttur og Sigríði Eysteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Guðlaugu R. Jónasdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóra og Viðskiptaráði Íslands.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 31. október 2003 með ályktun A/RES/58/4 og sem öðlaðist gildi 14. desember 2005.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu er fyrsti hnattræni bindandi gerningurinn gegn spillingu. Markmið hans er að taka á því víðtæka vandamáli sem spilling er, bæði hvað varðar hið opinbera og einkageirann.
    Tilgangur samningsins er einkum þríþættur: í fyrsta lagi að stuðla að og styrkja ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu með skilvirkari og árangursríkari hætti; í öðru lagi að stuðla að, greiða fyrir og styðja við alþjóðlega samvinnu og tæknilega aðstoð til að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu, m.a. við að endurheimta fjármuni; og í þriðja lagi að stuðla að ráðvendni, áreiðanleika og góðri opinberri stjórnsýslu og umsýslu opinberra eigna. Fjallað er ítarlega um efnistök einstakra kafla samningsins í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
    Nefndin vekur athygli á því að samhliða framlagningu þessa máls á Alþingi lagði dómsmála- og mannréttindaráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, sem leiðir af samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Sú breyting sem lögð er til með frumvarpinu er nauðsynleg til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu kveður á um. Jafnframt hefur forsætisráðherra lagt fram lagafrumvarp um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum sem ætlað er að skapa lagalega umgjörð um siðareglur fyrir ríkisstarfsmenn og ráðherra. Þar er kveðið á um ferli við innleiðingu siðareglna, eftirlit með reglunum af hálfu stjórnenda og umboðsmanns Alþingis og samhæfingu milli þeirra opinberu aðila sem bera ábyrgð á því að stjórnsýslan standist gæðakröfur. Mæta ákvæði laganna þeim áskilnaði sem gerður er í 6. og 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Fyrrnefnd frumvörp eru nú til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd.
    Nefndin leggur áherslu á að spilling er alvarleg meinsemd sem grefur undan lýðræði og réttarríkinu og að barátta gegn henni hljóti að vera mikilvægt forgangsverkefni stjórnvalda á hverjum stað. Spilling nær yfir landamæri og með þróun síðustu áratuga í átt til aukinnar hnattvæðingar og opnara alþjóðasamfélags er enn mikilvægara en áður að ríki heims taki höndum saman og vinni gegn henni. Nefndin fagnar þeim skrefum sem stigin eru með samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og telur að í samningnum og fyrrnefndum lagabreytingum felist mikilvæg tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld til að berjast gegn spillingu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Fyrirsögn tillögunnar orðist svo: Tillaga til þingsályktunar um aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu.

Alþingi, 31. ágúst 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson.


Margrét Tryggvadóttir.



Valgerður Bjarnadóttir.


Helgi Hjörvar.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.