Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1446  —  658. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnar Þór Másson frá forsætisráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Ferðamálastofu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fiskistofu, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Fjölmenningarsetri, Hafrannsóknastofnuninni, ISAVIA ohf., Jafnréttisstofu, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi lögreglumanna, Lyfjastofnun, Lýðheilsustöð, Orkustofnun, Persónuvernd, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Seðlabanka Íslands, Siglingastofnun Íslands, Sjúkrahúsinu á Akureyri – hjúkrunarráði, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Suðurlandi, tollstjóra, Tryggingastofnun ríkisins, Vegagerðinni, Veiðimálastofnun, Viðskiptaráði Íslands, Vinnueftirlitinu og Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu er lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem fela í sér að innanríkisráðuneyti verður til við sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, velferðarráðuneyti við sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti við sameiningu iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Einnig er lagt til að heiti umhverfisráðuneytis verði breytt í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Verði frumvarpið að lögum fækkar ráðuneytum úr tólf í níu. Markmið breytinganna er að ný ráðuneyti verði öflugar starfseiningar hvert á sínu sviði með betri yfirsýn yfir þau verkefni sem þeim eru falin.
    Á fundum sínum fjallaði nefndin um þær breytingar sem felast í frumvarpinu og þá sérstaklega stofnun atvinnuvegaráðuneytis en flestar athugasemdir umsagnaraðila varða það ráðuneyti og þær breytingar sem lagðar eru til á stofnunum þess. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef frumvarpið verði að lögum verði stofnaður stýrihópur með þátttöku ráðherra og verkefnisstjórn með þátttöku ráðuneytisstjóra, sérfræðinga og fulltrúa starfsmanna. Mikilvægur þáttur vinnunnar verður að ræða málið við samtök sem eiga hagsmuna að gæta, þ.e. sérstaklega heildarsamtök svo sem í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi, stéttarfélög, félag forstöðumanna og sveitarfélögin. Þá verður þingflokkum boðið að tilnefna tengiliði til að fylgjast með vinnunni og koma sínum sjónarmiðum að. Fram kom að ætlunin er að þessir aðilar muni einnig fylgja því eftir að fram fari allsherjarendurskoðun á þeim verkefnum sem viðkomandi ráðuneyti sinna og þeim stofnunum sem undir þau heyra. Þá verður farið heildstætt yfir verkaskiptingu innan Stjórnarráðs Íslands þannig að verkefni fleiri ráðuneyta en þeirra sem sameinast geta breyst.
    Meiri hlutinn telur þörf á lengra samráðsferli áður en atvinnuvegaráðuneytið verður að veruleika og leggur því til breytingar á 1. gr. þannig að ekki verði kveðið á um nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að þessu sinni. Heiti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins munu því haldast óbreytt.
    Fyrir liggur að forsendur breytinga á hlutverki umhverfisráðuneytisins, þannig að til verði umhverfis- og auðlindaráðuneyti, tengjast stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis og verkaskiptingu milli þessara tveggja nýju ráðuneyta. Meiri hlutinn leggur því einnig til að sú breyting verði ekki gerð að þessu sinni, þ.e. að heiti umhverfisráðuneytisins verði óbreytt en unnið verði að stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis samhliða því samráðsferli sem fram undan er vegna atvinnuvegaráðuneytis.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, þó ekki sé lögð til afgreiðsla á þeim hluta málsins nú, þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar nái fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu.
    Það er skoðun meiri hlutans að í aðdraganda sameiningar ráðuneyta, í þessu tilviki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, geti verið heppilegt verklag að sami ráðherra gegni þeim ráðuneytum sem til stendur að sameina mánuðina áður en sameiningin á sér stað og stjórni því verki, t.d. frá áramótum. Hið sama á við um þær sameiningar ráðuneyta sem meiri hlutinn leggur til að verði samþykktar núna.
    Að mati meiri hlutans er almennt breið sátt um velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið og því mikilvægt að hefja vinnu við stofnun þeirra nú þegar þannig að hægt verði að ná fram sem fyrst þeirri miklu hagræðingu sem fyrir er séð í tengslum við málaflokka og stofnanir innanríkis- og velferðarráðuneyta.
    Meiri hlutinn leggur í tengslum við framangreindar breytingar til að gildistaka frumvarpsins verði um næstu áramót.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      A-, e-, g- og h-liður 1. gr. falli brott.
     2.      2. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.
     3.      1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða orðist svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. er ráðherra heimilt að undirbúa stofnun nýrra ráðuneyta, m.a. með skipun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra sem hafi heimild til að bjóða starfsmönnum starf skv. 14. gr. laganna.

Alþingi, 31. ágúst 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Mörður Árnason.



Ögmundur Jónasson.


Valgerður Bjarnadóttir.