Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna

Mánudaginn 17. janúar 2011, kl. 15:37:04 (0)


139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

[15:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Margar spurningar og stuttur tími. Ég skal byrja á neysluviðmiðunum. Það hefur komið fram að verið er að vinna þau á vegum velferðarráðherra og þau liggja fyrir. Þau hafa ekki verið kynnt ríkisstjórninni, það verður vonandi gert í þessari viku en ég heyri að velferðarráðherra hyggst fara í samtöl og kynningu og rýningarvinnu á þessu máli með aðilum vinnumarkaðarins, ekki síst ASÍ og sveitarfélögunum. Við skulum vona að þetta liggi fyrir sem allra fyrst.

Varðandi það hvort við séum búin að ná utan um skuldavandann fórum við í langan feril, m.a. með stjórnarandstöðunni, til að vinna það mál. Allir, eða flestir svo ég noti frekar það orð, voru sammála um að þær tillögur sem þar voru settar fram mundu ná utan um skuldavanda heimilanna. Hv. þingmaður veit vel að það er mjög erfitt og ekki skynsamlegt að vekja væntingar um að eitthvað meira sé á döfinni í því efni. Það hefur komið í ljós að einstaklingar hafa ekki notað sem skyldi þau 50 úrræði sem eru fyrir hendi vegna þess að þeir hafa alltaf verið að bíða eftir því að fleiri úrræði kæmu. Ég tel að við höfum náð utan um skuldavandann og það var upplýst þegar við kynntum þessar aðgerðir.

Við verðum auðvitað að sjá ef eitthvað sérstakt kemur í ljós hvort skoða þurfi það en það eru engin áform um frekari aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Varðandi nauðungarsölurnar höfum við skipulega tekið á því máli, m.a. með sérstakri greiðsluaðlögun sem ætti í flestum tilvikum að koma í veg fyrir nauðungarsölu þegar það ákvæði er orðið fullvirkt. Eins og frá því var gengið held ég að það muni virka með þeim hætti að nauðungarsölum muni fækka verulega þótt aldrei sé fullkomlega hægt að koma í veg fyrir þær. Engin áform liggja fyrir um (Forseti hringir.) að framlengja lögin frekar en þar til í marslok eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég skal reyna að svara restinni af fyrirspurn hv. þingmanns á eftir.