Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna

Mánudaginn 17. janúar 2011, kl. 15:39:22 (0)


139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

[15:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sjálf sem hefur skapað hér væntingar um að hægt sé að gera hluti sem ekki hefur reynst mögulegt þegar kemur að því að leysa brýnan skuldavanda heimilanna. Það er hæstv. forsætisráðherra sjálfur sem mjög lengi var að slá út af borðinu þær tillögur sem ekki reynist gerlegt fyrir ríkissjóð að standa undir. Það er ekki hægt að segja að þetta snúist um vanda gagnvart væntingum. Þær væntingar hafa fyrst og fremst verið búnar til á heimili ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Meginatriðið er að þegar vinnan fór af stað í fyrrahaust var reynt að meta þá sem voru í mesta vandanum. Þær tillögur áttu að koma til móts við þann hóp. Nú er ljóst að einungis hluti þessara tillagna er kominn í framkvæmd og það er mjög brýnt núna að gera sér grein fyrir því hvaða hópi þessar aðgerðir gagnast best. Nær þetta utan um þann hóp sem lagt var upp með í haust, sérstaklega þegar litið er til þess að ekki er enn þá útséð um hvernig farið skuli með (Forseti hringir.) hlutlausar aðgerðir, t.d. þá mikilvægu tillögu sem þarna var um vaxtabætur?