Dómstólar

Mánudaginn 17. janúar 2011, kl. 16:06:56 (0)


139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni hans innlegg í umræðuna. Hér er fjallað um málefni sem full ástæða er til að stíga varlega til jarðar í og hafa öll vöð fyrir neðan sig. Það háttar hins vegar þannig til með þær breytingar sem verið er að gera hér að mjög góð sátt er um velflesta þætti þeirra. Það er góð sátt, þverpólitísk sátt, um nauðsyn þess að fjölga dómurum í því tímabundna ástandi sem nú ríkir. En hvað varðar þær breytingar sem verið er að gera á Hæstarétti sjálfum eru þær til komnar vegna ábendinga réttarins, stuðnings ráðuneytisins, samþykkis meiri hluta allsherjarnefndar og væntanlega stuðnings meiri hluta þingsins, því geri ég a.m.k. ráð fyrir. Öll þrjú svið ríkisins — þrískipting valdsins í framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvald — koma því að þessu máli með einum eða öðrum hætti. Ég held að þess vegna séu þetta breytingar sem við eigum að grípa til þó að ég geti að mörgu leyti fallist á það sem fram kemur í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að jafnræði eigi að gilda og samræmi á milli þess sem menn gera í þessum efnum og hvað varðar landsdóm.