Dómstólar

Mánudaginn 17. janúar 2011, kl. 16:35:51 (0)


139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

dómstólar.

246. mál
[16:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það sjónarmið að nauðsynlegt sé að styrkja og efla dómstóla þessa lands hefur margoft komið fram hjá mér hér á þinginu og hjá fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Við höfum enn frekar kallað eftir því að það yrði gert í tengslum við efnahagshrunið þegar fyrirséð var að málum hjá dómstólunum mundi fjölga verulega og að álag á dómskerfið yrði meira en áður, ekki síst vegna þess að það var fyrirséð við efnahagshrunið að fjöldi einstaklinga og fyrirtækja færi í þrot, gjaldþrotaskiptum mundi fjölga og ágreiningsmálum vegna þeirra. Að sama skapi var fyrirséð, t.d. eftir útkomu rannsóknarskýrslu Alþingis, að býsna miklar líkur væru á að stórum sakamálum á sviði efnahagsbrota og ef til vill á öðrum sviðum mundi fjölga, sem aftur mundi leiða til þess að grípa yrði til aðgerða til að styrkja og efla dómstólana.

Af þessum ástæðum höfum við talað fyrir því — og ég hef sjálfur staðið fyrir utandagskrárumræðu og óskað eftir svörum frá hæstv. innanríkisráðherra, áður hæstv. dómsmálaráðherra, við því hvernig hann hygðist bregðast við auknu álagi á dómstólana. Viðbrögð hans liggja nú fyrir, þ.e. viðbrögð hæstv. ráðherra. Þau birtast í því frumvarpi sem við ræðum hér. Þar er lagt til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað tímabundið um þrjá og að dómurum við héraðsdómstólana verði fjölgað tímabundið um fimm. Þó er það þannig að lögin mæla fyrir um að þessir nýju dómarar verði skipaðir á hefðbundinn hátt. Í tilviki hæstaréttardómaranna nýju verða þeir skipaðir ótímabundið þar til þeir láta af störfum sökum aldurs.

Ég hef gagnrýnt það að við þessum vanda sé brugðist með þeim hætti sem ég hef hér lýst, þ.e. að stjórnvöld hafi ákveðið að leysa þann tímabundna vanda sem upp er kominn í dómstólunum með því að grípa til ótímabundinna aðgerða. Ég hefði talið skynsamlegra að gera tímabundnar ráðstafanir til þess að verða við óskum um að styrkja og efla dómstólana til að tryggja að þeir geti sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna frekar en að fara þá leið sem farin er í frumvarpinu. Helst hefði maður viljað sjá að málefni dómskerfisins og dómstólanna hefðu verið tekin til gagngerrar endurskoðunar í heild sinni. Þá á ég við framkomnar hugmyndir sem varða stofnun millidómstigs á Íslandi.

Ekki alls fyrir löngu var haldið málþing hér í Reykjavík sem að stóðu, ef ég man rétt, Dómarafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Félag ákærenda. Fulltrúar allra þessara aðila lýstu framtíðarsýn sinni varðandi uppbyggingu dómskerfisins á Íslandi. Mikill samhljómur virtist vera meðal þeirra sem tóku þátt í þessu málþingi um að skynsamlegast væri að stofna millidómstig á Íslandi til að bregðast við þeim aukna málafjölda sem fyrirsjáanlegt er að rati inn í dómstólana, eða það aukna álag sem fylgir stórum og miklum málum sem þangað munu berast. Sú leið hefði veitt okkur tækifæri til að gera Hæstarétt, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vék að í sinni ágætu ræðu hér á undan, að raunverulegum fordæmisdómstól, þannig að í stað þess að dómurum við Hæstarétt yrði fjölgað mundi breytt kerfi leiða til þess að tala þeirra yrði sú sama eða þeim yrði hugsanlega fækkað til að tryggja að flestir dómarar réttarins dæmdu í öllum þeim málum sem þangað kæmu. Það mundi leiða til þess að algjört samræmi yrði í réttarframkvæmd innan Hæstaréttar. Sú leið er ekki farin í frumvarpinu heldur er lagt til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað um þrjá og héraðsdómurum um fimm.

Ég velti því upp, þegar málið var til umfjöllunar í nefndinni, hvort ekki væri hægt að fara aðrar leiðir til þess að ná sömu markmiðum, eins og t.d. að fjölga aðstoðarmönnum dómara. Þeir hafa lengst af, held ég, verið tveir, tveir aðstoðarmenn sem níu dómarar við Hæstarétt hafa skipt sín á milli, en þeim mun fljótlega fjölga í fjóra. Ég hefði talið eðlilegt að hver hæstaréttardómari gæti ráðið sér sinn aðstoðarmann til að starfa og vinna fyrir sig. Með því væri hægt að minnka álagið á hverjum og einum dómara sem er mjög mikið. Þegar menn skoða tölur yfir það hversu margir dómar eru kveðnir upp við Hæstarétt Íslands á ári má leiða að því líkur að sumir dómarar sem við réttinn starfa séu að dæma allt að einu máli á dag, sem er allt of mikið álag á hvern og einn dómara og býður þeirri hættu heim að mistök verði gerð í dómaframkvæmd og að réttaröryggi borgaranna sé ógnað. Hér eins og við ýmsa dómstóla hefði verið hægt að fjölga aðstoðarmönnum, löglærðum aðstoðarmönnum, sem dómararnir sjálfir hefðu getað ráðið sér, menn eða konur sem þeir treystu þekkingar sinnar vegna til þess að létta undir með þeim. Þannig hefði hugsanlega mátt leysa þá stöðu sem upp er komin.

Í nefndaráliti meiri hlutans segir að meiri hlutinn telji mjög mikilvægt að dómstólar geti brugðist við þeirri fjölgun mála sem þegar er farin að koma fram og enn fremur að tryggt verði að málarekstur fyrir dómstólum dragist ekki, samanber ákvæði 70. gr. stjórnarskrár, um að allir eigi rétt á að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Ég segi það fyrir mína parta að ég tek heils hugar undir þau sjónarmið.

Ég vil í því sambandi benda á að þeim markmiðum sem meiri hluti hv. allsherjarnefndar teflir fram er hægt að ná fram með öðrum úrræðum eða öðrum aðgerðum sem bent hefur verið á í þinginu. Þar vil ég t.d. benda hv. þm. Róberti Marshall, formanni allsherjarnefndar, á frumvarp sem ég hef flutt ásamt hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og liggur í allsherjarnefnd um breytingu á lögum um meðferð einkamála, sem mælir fyrir um það að mál sem varða efnahagshrunið hljóti flýtimeðferð í dómskerfinu. Í dag er það þannig að Hæstarétti ber samkvæmt réttarfarslögum að haga röð mála innan réttarins og afgreiðslu þeirra með ákveðnum hætti og er óheimilt að raða málum upp á dagskrá sína á annan veg en þar er kveðið á um. Ég tel það mjög til hagsbóta fyrir réttinn ef tímabundið ákvæði væri fellt inn í réttarfarslögin sem tryggði flýtimeðferð allra mála sem vörðuðu efnahagshrunið, bæði vegna þess að þau varða almannahagsmuni, eins og t.d. gengisdómarnir, og hugsanleg sakamál sem gætu borist til réttarins, atriði sem snerta strengi hjá þjóðinni og mikilvægt er að einhver úrlausn fáist á. Þannig að vilji menn virkilega ná þeim sjónarmiðum fram sem koma fram í nefndarálitinu vil ég benda hv. þingmanni, formanni nefndarinnar, á að það væri kannski þess virði að taka það mál á dagskrá og sjá hvort meiri hluti er fyrir því að gera það að lögum hið fyrsta til að greiða fyrir því að dómsmál sem varða efnahagshrunið hljóti afgreiðslu í Hæstarétti.

Ég nefndi það hér áðan að ég hefði viljað sjá stjórnvöld fara aðrar leiðir í því að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt. Ein þeirra er sú hugmynd að í stað þess að skipa nýja dómara ótímabundið til að leysa tímabundinn vanda ætti að skipa nýja hæstaréttardómara tímabundið meðan menn eru að vinna á þessum aukna málafjölda. Það hefði leitt til þess að auðveldara væri að fækka dómurum síðar þegar álagið minnkar og málum fækkar. Á þessu sjónarmiði er tekið í nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir að í 61. gr. stjórnarskrárinnar sé kveðið á um sjálfstæði dómara og í ljósi þess hafi ekki verið talið unnt að skipa dómara tímabundið í embætti. Það álit er sagt byggjast á sjónarmiðum um réttaröryggi borgaranna sem eiga að geta treyst því að dómendur séu engum háðir í störfum sínum. Þetta er skoðun sem fram kom við meðferð málsins í hv. allsherjarnefnd.

Ég bendi á það, eins og fram kom í andsvari mínu hér áðan, að nú liggur fyrir að höfðað hefur verið mál gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi. Það þýðir að fimm reyndustu dómarar Hæstaréttar þurfa að taka sæti í landsdómi til að dæma í því máli og á meðan þeir sitja í landsdómi munu þeir ekki að sinna dómstörfum í Hæstarétti. Til þess að dómurinn verði starfhæfur þarf því að ráða eða skipa dómara í þeirra stað við Hæstarétt. Ég veit ekki betur en það verði gert með tímabundnum skipunum. Mér finnst það ósannfærandi af hálfu meiri hlutans að halda því fram í nefndaráliti að við þá tilteknu fjölgun sem við ræðum hér sé ómögulegt og ófarsælt að grípa til tímabundinnar skipunar þegar fyrir liggur að hún verður viðhöfð í tengslum við landsdómsmál. Sömu sjónarmið hljóta að eiga við í báðum þessum tilvikum.

Virðulegi forseti. Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að gerðar verði ýmsar breytingar á frumvarpinu eins og það var lagt fram. Þar er í fyrsta lagi lagt til að kjörtímabil forseta Hæstaréttar verði lengt úr tveimur árum í fimm. Sú tillaga kemur, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gat um og hv. þm. Róbert Marshall nefndi einnig þegar hann mælti fyrir þessu nefndaráliti, frá Hæstarétti Íslands sjálfum. Það er rétt að því sé til haga haldið að þessi breytingartillaga er dálítið út úr kú miðað við meginefni frumvarpsins að öðru leyti. Því er ætlað að fjölga dómurum og reyna að tryggja dómurum og dómstólunum það starfsumhverfi að geta sinnt störfum sínum og þeim verkefnum sem þeim eru falin. En hér er á ferðinni breytingartillaga sem er allt annars eðlis og varðar ekki meginefni frumvarpsins og hefur ekki komið til þingsins áður þrátt fyrir að ýmsar nefndir og starfshópar á vegum ráðuneytisins hafi haft málefni Hæstaréttar til meðferðar í vinnu sinni á umliðnum missirum og árum.

Eins og áður segir gerir tillagan ráð fyrir að kjörtímabil forseta Hæstaréttar verði lengt úr tveimur árum í fimm. Það er býsna mikil lenging, ekki síst í ljósi þess að Hæstaréttur er dálítið öðruvísi vinnustaður en margir aðrir, vegna þess að menn starfa almennt ekki mjög lengi í Hæstarétti, menn sitja þar ekki svona almennt séð árum eða áratugum saman. Venjulega ráðast til réttarins reyndir lögfræðingar sem sinnt hafa öðrum störfum áður og sitja þar ekki mjög langa hríð. Nái þessi breyting fram að ganga leiðir það til þess að minni endurnýjun verður í forustu réttarins sem ég tel að sé ekki endilega til góða.

Ætli menn að fara að gera breytingar á þessari uppbyggingu Hæstaréttar á þann veg sem hér er lagt til kann það að leiða til þess að við þurfum jafnframt að taka önnur atriði til athugunar. Ég segi eins og hv. þm. Birgir Ármannsson að mér finnst töluvert skorta upp á þann rökstuðning sem þarf að liggja fyrir áður en í slíka breytingu er ráðist. Það að fjölga hæstaréttardómurum úr níu í tólf eykur ekki að mínu mati svo umsvif og stjórnsýslu Hæstaréttar að það kalli á að kjörtímabil forsetans sé lengt úr tveimur árum í fimm, um 150%. Ég fæ ekki séð að svo sé og tel að yfir þetta atriði þurfi að fara nákvæmar en okkur hefur tekist að gera við meðferð málsins í nefndinni, sem þó hefur verið til mikils sóma. Samstarfið við hv. þm. Róbert Marshall, formann nefndarinnar, í tengslum við þetta mál hefur verið ljómandi gott. En ég vara við því að menn séu að grauta saman tveimur ólíkum eða mörgum ólíkum hlutum eins og mér finnst að verið sé að gera í þessu máli.

Ég ítreka það síðan að vilji stendur til þess að lögfesta frumvarpið en gera þarf breytingar á frumvarpstextanum og þá vísa ég til gildistökuákvæðanna. Þeim þarf að breyta áður en málið kemur til endanlegrar atkvæðagreiðslu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður tók vel í þá beiðni mína að málið gengi til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég hygg að ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, munum óska eftir því að það verði gert út af þessu atriði og öðrum.