Stefna Íslands í málefnum norðurslóða

Þriðjudaginn 18. janúar 2011, kl. 16:48:32 (0)


139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:48]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að leggja fram þetta metnaðarfulla mál, tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, sem er reifað hér í 11 liðum. Maður staldrar við fyrsta lið í fyrsta meginþætti, að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins, enda er það út af fyrir sig ekki sjálfgefið. Eftir því sem ég best veit er það talsvert baráttumál fyrir okkar þjóð að gera sig gildandi á þessu sviði en er engu að síður, að mati þess sem hér stendur, afskaplega brýnt þótt ekki sé nema sakir hnattrænnar stöðu Íslands. Það hlýtur að vera eitt af stóru verkefnunum í utanríkisþjónustu Íslendinga á næstu árum og jafnvel áratugum að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins og þar treysti ég manni eins og hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, til að leiða þá vinnu Íslandi og Íslendingum til farsældar.

Hér er gríðarlega mikið í húfi, herra forseti, og þessi þingsályktunartillaga kemur inn á fjöldamörg atriði sem vert er að nefna. Ég vil byrja á því að nefna atriði er lýtur að samvinnu Íslendinga með sínum helstu bræðraþjóðum beggja vegna við vestur- og austurströnd Íslands, nefnilega Grænlendingum og Færeyingum. Það er vikið að því hér í þingsályktunartillögunni að efla þurfi samvinnu við þessa nágranna okkar og vitna ég orðrétt, með leyfi forseta, í ályktunina:

„Efla þarf samvinnu við Grænlendinga og Færeyinga í málefnum norðurslóða á sviði viðskipta, orkumála, auðlindanýtingar, umhverfis- og ferðamála. Aukin samvinna vestnorrænu landanna mun styrkja alþjóðlega, efnahagslega, og öryggispólitíska stöðu þeirra allra.“

Því er á þetta minnst, herra forseti, að það er að mati þess sem hér stendur afskaplega mikilvægt að þessar þjóðir þrjár bindist þjóðaböndum í þessu máli vegna þess að ég held að þær geti þrjár saman farið fram í þessu máli af meiri krafti en hver í sínu lagi. Auðvitað er rík samvinna á milli þessara landa á margvíslegum sviðum, ekki síst þessu, en ég tel að einmitt á þessu sviði þurfi að tryggja samstarf og samvinnu þessara þjóða enn frekar, ekki síst í ljósi þeirra auðlinda sem um er að tefla þegar horft er inn í framtíðina. Það eru ekki aðeins auðlindir á sjávarbotni norður af Íslandi sem um er að tefla heldur líka á meginlandi Grænlands þar sem æ meira virðist koma í ljós af ýmsum góðmálmum og jarðefnum sem nýtanleg eru í mjög ríkum mæli eftir því sem vísindamenn hafa komist að á undanförnum árum.

Þess vegna hvet ég hæstv. utanríkisráðherra til að bindast nágrannaþjóðum okkar, Grænlendingum og Færeyingum, enn frekari böndum í þessu efni. Saman geta þessar þjóðir myndað enn ríkari einingu en verið hefur þessu máli til heilla. Eins og ég gat um í upphafi er ekki sjálfgefið að við tryggjum stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins. Þar er við að etja mörg stór og valdamikil lönd og nægir þar vitaskuld að nefna bæði Bandaríkin og Rússland en einnig Kanada, Svíþjóð, Finnland, Danmörku og Noreg. Þar af leiðandi er ekki sjálfgefið að litla Ísland eitt og sér nái árangri sem skyldi í þessum efnum og fyrir vikið mikilvægt að það leiti samvinnu við þessi lönd sem ég gat um í upphafi.

Það er tímabært að horfa til allra leiða sem geta fleytt okkur áfram í þessu efni. Vil ég þar sérstaklega nefna ágæta grein sem hæstv. utanríkisráðherra reit í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni „Norðurslóðir og stefna Íslands“. Þar reifar hann þetta mál mjög gagnort og málefnalega eins og hans er von og vísa og kemur inn á fjöldamörg atriði málsins. Vil ég ekki síst staldra við þann lið er lýtur að því hversu vel Ísland er í sveit sett til að vera „kjörin miðstöð bæði fyrir vöktun og eftirlit með náttúru þess hluta norðursins sem að okkur snýr, og fyrir viðbúnað vegna björgunar og leitar á norðurhöfum“ svo vitnað sé orðrétt, með leyfi forseta, í grein hæstv. utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag. Greinin byggir vitaskuld að einhverju leyti á þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar.

Ísland er legu sinnar vegna afskaplega vel í sveit sett til að sinna þessu hlutverki og reyndar mörgum öðrum þáttum sem hanga utan á því sem ég nefndi hér á undan. Horfi ég þar til ýmissa vísinda-, kennslu- og menntaþátta sem einnig er vikið að í þessari þingsályktunartillögu og hæstv. ráðherra skrifaði um í téðri grein. Ísland á að vera og getur orðið virk og mikilsverð miðstöð í ýmsum norðurslóðarannsóknum á komandi árum. Nú þegar er vitaskuld kominn mjög merkur vísir að því og nægir að líta í því efni til Háskólans á Akureyri sem er orðinn eins konar norðurslóðamiðstöð með sínu rannsóknarþingi norðurslóða og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar en þar sinna nú þegar allmargir þessum málum. Má að auki nefna merkt starf í Háskóla Íslands en eins og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gat um í framsögu sinni fyrr í dag eru erlendar þjóðir nú þegar farnar að horfa til sérfræðikunnáttu Íslendinga á þessu sviði. Ekki síst þess vegna þurfum við að spýta nokkuð í lófana til að halda því forskoti sem við erum e.t.v. sem þjóð nú þegar komin með á þessu sviði.

Herra forseti. Eins og ég gat um eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi til framtíðar litið, ekki einasta hvað varðar ýmsar náttúruauðlindir sem í auknum mæli eru að koma í ljós undan hopandi ísþekju heldur og þætti er varða öryggismál og ýmsar siglingaleiðir sem þingmenn hafa nefnt hér í ræðum um þetta mál fyrr í dag.

Að síðustu verð ég að geta þess þáttar sem stendur okkur Íslendingum líka mjög nærri hjarta en það er að styðja réttindi frumbyggja á norðurslóðum. Þeir sem hafa oft komið til grannþjóðanna í austri og vestri, Grænlands jafnt sem Færeyja, hljóta að taka upp málstað þeirra sem hafa í árhundruð og líklega árþúsundir stundað sín menningartengdu vinnubrögð sem enn eru til staðar og ber að vernda. Þau eru merkur hluti af menningarlífi þessara þjóða. Það má aldrei verða svo að voldugar þjóðir geti ráðist með einhverjum hætti að þessum menningarþætti í lífi þjóða, lítilla og smárra, á norðurhveli jarðar. Þess vegna þurfum við að standa með þessum þjóðum og okkur sjálfum í að styðja réttindi frumbyggja á norðurslóðum. Þessi tillaga er liður í því.