Skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 14:44:14 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[14:44]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Nú hyggst forseti gefa yfirlýsingu í samræmi við fyrirheit frá því við upphaf þingfundar í morgun.

Þriðjudaginn 2. febrúar í fyrra skýrði skrifstofustjóri mér frá því að tveir starfsmenn tölvudeildar skrifstofunnar hefðu tilkynnt honum að fundist hefði tölva í skrifstofuherbergi sem ætlað er varamanni á 5. hæð skrifstofubyggingarinnar handan Austurvallar. Þar eru fundaherbergi nefnda, starfsmanna og þingmanna tveggja þingflokka, Hreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokks. Tölvan, sem var hálffalin, var ekki í eigu Alþingis en hún var tengd tölvuneti Alþingis. Borðtölva sem fyrir var í herberginu hafði verið aftengd.

Fyrsta athugun á tölvunni benti til þess að einhver óeðlileg starfsemi hefði farið fram í henni. Hún virtist vera í þeim ham sem notaður er til að fylgjast með umferð á tölvuneti þingsins en vegna uppbyggingar á tölvunetinu er það þó takmarkað sem hún ætti að geta hafa séð. Aðstæður voru myndaðar, slökkt var á tölvunni og farið með hana í Skála við þinghúsið og að höfðu samráði við skrifstofustjóra var málið tilkynnt til lögreglunnar. Engar frekari vísbendingar fengust hér hjá starfsmönnum um hvernig tölvan væri komin á þann stað sem hún fannst né hver ætti hana. Enginn hefur síðan spurst fyrir um tölvuna.

Rannsókn lögreglunnar stóð í um viku og þriðjudaginn 9. febrúar var skrifstofustjóra tilkynnt að rannsókn væri lokið og án árangurs. Engin auðkennismerki hefðu fundist, þau hefðu öll verið afmáð, engin fingraför hefðu fundist og ekkert í daglegu starfi lögreglunnar við athugun annarra mála tengdist þessum tölvufundi. Málinu væri sem sagt lokið af hálfu lögreglunnar en það væri mat hennar að fagmaður hefði verið að verki til að afmá nokkur spor sem lögreglan gæti fetað sig eftir. Rannsókn málsins var sem sagt á vegum lögreglunnar og ég taldi því ekki eðlilegt á því stigi að hvorki ég né neinn starfsmanna þingsins hefðu uppi fyrirspurnir um málið meðal þingmanna. Að ráðum lögreglunnar lét ég hins vegar hæstv. forsætisráðherra, yfirmann Stjórnarráðsins, vita um málið eftir því sem mér var það kunnugt, ekki aðra.

Tölvudeild skrifstofu þingsins fór mjög rækilega yfir hvort þess væru nokkur merki að óviðkomandi aðili hefði farið í gögn þingsins, hvort einhverjar skemmdir hefðu verið unnar eða ástæða væri til að ætla að gögn hefðu verið skoðuð, afrituð eða tekin. Svo reyndist ekki vera. Þannig stóð málið að lokinni rannsókn lögreglu og enn hefur ekkert nýtt komið fram í málinu. Við vitum ekkert meira um það.

Tölvudeild skrifstofunnar fékk fyrirmæli um að fara yfir allan öryggisbúnað og gera breytingar og efla hann allan eftir því sem unnt væri. Það var gert mjög skipulega. Atburður af því tagi sem hér varð, þ.e. að óþekkt tölva tengist tölvuneti þingsins án þess að um það séu merki, ætti því ekki að geta endurtekið sig.

Það voru mjög eindregin tilmæli frá tölvudeildinni að mál þetta yrði að svo komnu ekki gert opinbert af öryggisástæðum. Með þetta í huga, svo og að engar vísbendingar komu frá lögreglu né frá skrifstofu þingsins sem nokkuð væri á byggjandi, ákvað ég að láta málið liggja til að koma ekki af stað vangaveltum eða grunsemdum sem ættu sér enga stoð. Ekkert virðist heldur benda til þess að mati tölvudeildar að nokkur hafi komist í gögn þingmanna.

Málið sem slíkt hvarf af mínu borði fljótlega og kom ekki til minna kasta fyrr en skrifstofustjóri skýrði mér frá því seint í gærkvöldi að blaðamaður hefði haft samband við hann um málið og virtist þekkja helstu þætti þess.

Skrifstofa Alþingis og tölvudeildin sérstaklega hefur lagt sig fram um að tryggja öryggi tölvugagna eins og nokkur kostur er. Hins vegar hafa starfsmenn hennar jafnan brýnt fyrir notendum, jafnt alþingismönnum sem starfsmönnum, að fara beri varlega og fáu sé unnt að fulltreysta. Ýmsir atburðir að undanförnu minna okkur líka á hve viðsjál hin nýja samskiptatækni er.

Ég heiti því að vinna að því að skapa það öryggi með tölvugögn Alþingis sem fullkomnasti búnaður sem völ er á getur veitt okkur. Enn fremur mun ég beita mér fyrir því að settar verði skýrar reglur um hvernig brugðist er við tilraunum til að komast inn á net þingsins. Forsætisnefnd Alþingis mun fjalla áfram um þetta mál. Það verður á hennar borði áfram og þar metið framhald málsins. Forseti mun síðan funda ásamt forsætisnefnd og formönnum þingflokka svo fljótt sem auðið er með þeim sem komið hafa að rannsókn málsins.