Skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 14:52:31 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[14:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir munnlega skýrslu um stöðu þessa alvarlega máls. Fyrir það fyrsta vil ég segja að öryggi og leynd fara ekki alltaf saman. Í þessu máli hefði verið betra að upplýsa, ef ekki forsætisnefnd eða formenn þingflokka þá þingheim allan um það sem kann að hafa gerst. Það er enn þá óupplýst hvernig tölva, okkur óskyld, komst og var stungið í samband á varamannsskrifstofu í Austurstræti 8–10 og lögreglurannsókn virðist engu hafa skilað um hvernig það gerðist. Það þýðir að öryggismál hvað þetta varðar hafa ekki verið í nægilega góðu lagi. Ég ætla ekki að halda því fram að hægt sé að fyrirbyggja allt í þessum efnum, alls ekki, og ekkert tölvukerfi í heiminum er svo öruggt að ekki sé hægt að brjótast inn í það með einhverjum hætti en kannski erum við ekki alltaf nógu meðvituð um að svo sé og sú hætta sé fyrir hendi. Ég held að það sé afar mikilvægt í framhaldinu að gera eins og frú forseti segir, að fara yfir alla þætti þessa máls, jafnvel taka það upp aftur og gera ráðstafanir. Þá er ég ekki að tala um girðingar eða annað slíkt sem hönd er á festandi heldur að gera þingmenn almennt meðvitaða um hið raunverulega öryggi sem við búum við hvað þetta varðar þannig að hægt sé að umgangast ekki bara tölvupóstinn sinn heldur öll samskipti sem fara fram á netinu með tilliti til þess.