Skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 14:54:38 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[14:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ágætri munnlegri skýrslu og í orðum þingmanna sem hér hafa talað er ljóst að málið er grafalvarlegt. Það er alvarlegt að því leytinu til að þarna hefur með einhverjum hætti tekist að koma fyrir hlut sem hefði getað verið hvernig hlutur sem er í rauninni.

Í öðru lagi er líka alvarlegt að mínu viti hvernig haldið var á málinu í upphafi, þ.e. að við skulum þurfa að frétta í dagblaði að þetta hafi gerst. Það er hins vegar eitthvað sem við lærum líka af. Við þurfum hins vegar að bregðast við þessu með einhverju móti. Ég treysti því að forseti og forsætisnefnd geri það því að þegar svona lagað gerist vakna ýmsar spurningar. Það kallar á vangaveltur og það hlýtur að kalla á viðbrögð og breytt vinnubrögð. Það hlýtur líka að kalla á það, sem mér finnst eðlilegt, að við óskum eftir þeim upplýsingum sem hægt er að fá um hvernig málið var rannsakað. Við reynum að komast að því og fá skýrslu eða einhverja rannsókn gerða. Að minnsta kosti vantar okkur skýringar á því hvernig hlutirnir gátu gerst með þessum hætti.

Ég segi það hreint út að það er með ólíkindum að þurfa að vera að ræða þetta. Okkur þarf kannski ekkert að bregða í rauninni eftir þær fréttir sem við höfum heyrt úr umheiminum og þekkjum um hvernig menn umgangast tölvukerfi og hvernig hægt er að komast inn í þau og þess háttar en þegar þetta er svona nálægt okkur þá hugsum við málið eðlilega upp á nýtt. Því hljótum við að gera þá kröfu að allt verði gert til að svona lagað gerist ekki aftur. Við hljótum líka að gera þá kröfu til okkar sjálfra að við höfum auga með því hvernig okkar vinnubrögð eru varðandi gögn og hvaða fólki við hleypum inn í byggingar og annað á vegum Alþingis.