Hlutafélög

Miðvikudaginn 26. janúar 2011, kl. 15:26:24 (0)


139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

hlutafélög.

176. mál
[15:26]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum. Auk mín eru meðflutningsmenn hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Margrét Tryggvadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Á fyrirlestri sem ríkisskattstjóri flutti á fundi hjá Félagi löggiltra endurskoðenda í vikunni kom hann með þessar glærur hérna sem ég get reyndar ekki sýnt. Þar kom fram að eigið fé fyrirtækja sem skiluðu rafrænum skattframtölum frá 1998–2010 hafði hækkað mjög hratt og ótrúlega hratt á árunum 2002, 2003, 2004, 2005, 2006 og 2007 og náði þeirri upphæð að verða 7.183 milljarðar. Það er um það bil fimmföld þjóðarframleiðsla eða um 70 milljónir á hverja einustu íslenska fjölskyldu. Þetta var eigið fé íslenskra fyrirtækja en eigið fé fyrirtækja er mismunur á eignum og skuldum sem á að vera raunveruleg eign samkvæmt mati endurskoðanda. Þessi eign datt nánast niður í núll í lok árs 2008 og fór niður í mínus 1.412 milljarða í árslok 2009. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir mér að þessi eign var oftalin. Það getur ekki verið að svona miklir peningar hafi farið eitthvað, það er útilokað, enda sýnir sig og fréttir undanfarna daga sýna það að þessi fyrirtæki eru flestöll orðin gjaldþrota, sem voru svona óskaplega rík árið 2008. Þetta er ekki einu sinni hægt að skýra með lækkun á hlutabréfum erlendis því að þótt þau lækki verða þau ekki minna en núllvirði og þótt skuldir komi á móti er það ekki skýringin. Skýringin er sú að sýnt var eigið fé sem ekki var til. Þetta er veila í hlutabréfaforminu sem þessu fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að eyða og lagfæra. Þessi veila er alþjóðleg, hún er um allan heim. Ég kem inn á það á eftir.

Við höfum frétt núna undanfarna daga af mjög undarlegum tilfæringum hjá hlutafélögum þar sem var um að ræða lánveitingar með veði í hlutabréfum, einmitt það sem þessu frumvarpi er ætlað að koma í veg fyrir, og kaup hlutafélaga í öðrum hlutafélögum og heilu ættbálkana af hlutafélögum. Það er ekki lengur verið að tala um móðurfélag og dótturfélag, heldur ömmufélag og langömmufélag o.s.frv. Þetta voru langar keðjur af fyrirtækjum sem menn stofnuðu til þess að notfæra sér þessa veilu í hlutabréfaforminu og sýna aukið eigið fé.

Lítið dæmi er ákvæði í lögum sem við samþykktum hér á Alþingi illu heilli, og ég hef beðist afsökunar á vegna þess að það var rökvilla, og hv. efnahags- og skattanefnd afgreiddi með miklu hraði á þeim tíma með örfáum línum í nefndaráliti og undir það skrifuðu margir ágætir, mætir þingmenn eins og núverandi hæstv. fjármálaráðherra, hann hefur reyndar ekki beðist afsökunar á því. Í því fólst að kröfu ESA að hlutafélögum og einkahlutafélögum skyldi heimilt að lána starfsmönnum eða tengdum aðilum til kaupa á hlutabréfum í viðkomandi félagi, örugglega með það að leiðarljósi að auka starfsmannalýðræði þannig að starfsmennirnir gætu eignast hlut í fyrirtækjunum. Við þá aðgerð að lána starfsmanni til kaupa á hlutabréfum í félaginu sjálfu jókst eigið fé félagsins vegna þess að lánið, skuldabréfið, var talið til eignar en hlutaféð var ekki talið til skuldar. Það má færa rök fyrir því að síðustu missirin sem bankarnir lifðu juku þeir kerfisbundið eigið fé sitt til þess að lifa af með því að lána starfsmönnunum óhemjufjármuni til kaupa á hlutabréfum. Sama var með sparisjóðina, frú forseti. Þessir peningar til lána á kaupum í hlutafélögum í fyrirtækjunum fóru að sjálfsögðu í hring. Bankinn eða fyrirtækið, hlutafélagið, lánaði starfsmönnum til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu sjálfu, peningarnir fóru í hring og það skipti í rauninni ekki máli hvort um var að ræða 100 milljónir, 1 milljón eða 1 milljarð. Eftir þessar æfingar allar fóru Íslendingar að tala um milljarð jafnléttúðlega og þeir töluðu um milljón áður og töluðu af mikilli léttúð um hvort tveggja. En milljarður er, frú forseti, virkilega mikill peningur — virkilega mikill peningur — þótt stundum hafi maður það á tilfinningunni að svo sé ekki.

Frumvarp þetta hefur verið flutt þrisvar áður, einu sinni sem breyting á lögum og tvisvar þar áður sem þingsályktunartillaga og hefur yfirleitt verið nokkuð góð þátttaka í því að flytja málið úr viðskiptanefnd, en þangað mun ég óska eftir, frú forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu.

Borist hafa nokkrar umsagnir, ég ætla að fara í gegnum tvær þeirra. Önnur er frá Kauphöllinni. Hún segir að fyrirtækin eða samtök þeirra geti sjálf sett sér slíkar reglur, þ.e. að upplýsa um eignarhaldið og um að ekki megi kaupa eða lána til eigenda fyrirtækis, ekki megi kaupa í þeim eða lána til þeirra og alveg sérstaklega ekki ef um er að ræða aðila með takmarkaða ábyrgð. Því er til að svara að slíkt yrði ekki nægilegt að mati flutningsmanna, ekki til þess að byggja upp traust vegna þess að samningar geta aldrei lagt á menn refsingar. Við flutningsmenn teljum að það sé nauðsynlegt að löggjafinn kveði á um refsingar þegar þessar reglur eru brotnar sem í reynd mundu annars eyðileggja það traust sem reynt er að byggja upp. Hin umsögnin er frá Viðskiptaráði Íslands. Í henni var lagt til að þessu yrði frestað þar til Evrópusambandið væri komið með lausn á því vegna þess að það er vaxandi skilningur á því að þetta sé ákveðið vandamál. Ég mun koma inn á það á eftir að þetta er verulega mikið vandamál víða um heim.

Tengsl þessa frumvarps við hrunið eru hvorki meira né minna en þau að ég leyfi mér að fullyrða að þessi veila í hlutabréfaforminu sé ein af meginástæðum hrunsins. Ég fullyrði það. Með þessum hætti gátu menn búið til eigið fé og hagnað vegna þess að þegar menn búa til keðju af fyrirtækjum þar sem peningarnir fara í hring þá fer arðurinn líka í hring. Og arðurinn fer hring eftir hring og virðist alltaf magnast upp þegar skoðað er eitt einstakt fyrirtæki í öllum hringnum. Fyrir utan það gefur þessi veila ákveðnum hluthöfum, yfirleitt stórum hluthöfum, tækifæri til að margfalda eign sína á kostnað — hverra? Litlu hluthafanna, sem álpast til þess vegna þess trausts sem fyrirtækin njóta að eiga hlut með þessum stóru hluthöfum. Það voru fyrst og fremst litlu hluthafarnir sem voru hlunnfarnir. Það voru fyrst og fremst þeir sem töpuðu í hruninu. Tæplega 60 þús. manns var reiknað út, ég bað um þá útreikninga, áttu í þeim bönkum og fyrirtækjum sem fóru á hausinn og ef maður undanskilur þá sem áttu meira en 50 milljónir þá voru það 55 þús. manns, venjuleg heimili, sem töpuðu um 80 milljörðum. Það er dálítið athyglisvert að setja það í samhengi við skuldirnar sem menn hafa talað lon og don um varðandi vandamál heimilanna. Svo bætast að sjálfsögðu við stofnfjáreigendur og vandi þeirra, sem mikið hefur verið rætt um undanfarna daga og er ekki búið að leysa enn þá, þar sem fólk keypti stofnbréf í góðri trú og svo urðu stofnbréfin verðlaus en lánin ekki. Það var nákvæmlega það sama.

Þetta fyrirbæri, hringferð peninga, gat aukið eigið fé fyrirtækja og magnað upp hagnaðinn sem gerði það að verkum að íslensku bankarnir sérstaklega sýndust vera afskaplega góð fyrirtæki. Þeir fengu alveg ótrúlega gott mat hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum. Það er dálítið athyglisvert, frú forseti, að matsfyrirtækin sem hljóta að hafa á að skipa mjög færum sérfræðingum skuli ekki hafa komið auga á þessa veilu í hlutabréfaforminu og veitt bönkunum matið „triple A“ sem er besta mat sem hægt er að fá og gerði það að verkum að þeir fengu lán út um allan heim á mjög góðum kjörum af því þeir voru með svo óskaplega gott mat og einu ári seinna eru þessi sömu fyrirtæki gjaldþrota, hreinlega gjaldþrota. Allir íslensku bankarnir þrír fengu mjög gott mat. Það er dálítil kaldhæðni fólgin í því að Landsbankinn sem kom með Icesave-dæmið fékk sérstaklega gott mat af því Icesave var svo snilldarleg lausn. Þannig hjálpaðist þetta allt að, matsfyrirtækin og veilan sem var misnotuð. Eigið fé jókst og hagnaðurinn jókst og fyrirtækin sýndust vera með mjög góða afkomu. Matsfyrirtækin gáfu þeim mjög góða einkunn, bestu einkunn sem hægt er að fá, sem varð til þess að þau fengu lán út um allan heim á eins góðum kjörum og hægt var. Það var lágvaxtatímabil þannig að kjörin voru mjög góð og íslensku fyrirtækin fóru eins og eldur í sinu um alla Evrópu og keyptu upp fyrirtæki, í London, Helsinki, bara um alla Evrópu, og meira að segja var farið til Makaó í Kína að fjárfesta. Þetta er forsaga þessa frumvarps.

Ég hugsa að ég fari nú ekki mikið nánar út í hvernig menn misnotuðu hlutabréfaformið, það var á margan mismunandi hátt. Þegar Íslendingar setjast einhvers staðar á fund, Íslendingar í stjórn fyrirtækis, og ákveða að stofna dótturfélag á eyju sem heitir Tortóla hlýtur maður að velta fyrir sér: Hvað var eiginlega á bak við þetta hjá mönnunum? Af hverju stofnuðu þeir ekki hlutafélag á Seyðisfirði? Til hvers voru þeir að þessu? Hver var hvatinn að því að menn stofnuðu dótturfélög á Tortóla? Það var auðvitað til að dylja eignarhaldið til að geta komið þessari keðju í gang svo að ekki sæist hver ætti og í hvaða hringi peningarnir fóru. Það er meginástæðan. Efnahagslífið hérna blés upp og svo var stungið á blöðruna og hún sprakk og það var ekkert inni í henni. Taflan og myndin sem ríkisskattstjóri brá upp á þeim fundi sem ég gat um sýnir einmitt að eigið fé sem virtist vera óskaplega mikið hvarf eins og dögg fyrir sólu og breyttist í mínus 1.412 milljarða í árslok 2009, í framtali 2010. Mér finnst því að menn þurfi að taka á þessu máli af mikilli alvöru.

Dulið eignarhald kemur í veg fyrir eðlilega skattlagningu og býður heim skattundanskotum þar sem allt eftirlit verður ómögulegt. Skilanefndirnar geta ekki einu sinni elt peningana, þær þurfa að fá dómsúrskurði bæði í Lúxemborg og annars staðar frá og fá bara ekki upplýsingar um hvert peningar, risaupphæðir, fóru. Allt þetta er náttúrlega brot á siðferði. Þetta eyðileggur siðferði í þjóðfélaginu og skekkir öll viðmið og alla samkeppni þegar sumir borga skatt og aðrir ekki.

Svo myndaðist valdastrúktúr þar sem stjórnirnar í vissum félögum gátu í rauninni eignast stærri og stærri hlut í fyrirtækjum með því að láta peninga fara í hringi án þess að leggja þá fram og fengu meiri og meiri völd í viðkomandi fyrirtækjum, jafnvel þótt mikill her af litlum hluthöfum væru meðeigendur. Þetta var mjög slæmt og auðgunaráhrifin voru alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig.

Lausnin á þessu gæti verið að banna hreinlega hlutafélögum að eiga í hlutafélögum. Hlutafélagaformið er afskaplega skemmtilegt og nytsamlegt tæki í atvinnurekstri. Ef hver einasti maður sem tekur þátt í atvinnurekstri ætti að bera fulla ábyrgð væru ekki margir tilbúnir til þess vegna þess að það fylgir alltaf áhætta hverjum atvinnurekstri. Menn eru ekki tilbúnir til að leggja heimili sitt og allt undir til þess að taka þátt í einhverju skemmtilegu dæmi sem getur gefið arð fyrir þjóðfélagið og hluthafana en felur í sér áhættu. Þess vegna var þetta form búið til þannig að menn bæru takmarkaða áhættu, þeir legðu fram fé eða ábyrgðir og bæru ábyrgð upp að því marki en ekki umfram það. Afskaplega sniðugt form sem hefur gagnast þjóðfélögum í mörg hundruð ár með mjög góðum árangri. En þegar hlutafélög fara að fjárfesta og eiga í hlutafélögum gerast undarlegir hlutir. Það er einmitt á því sem þessu litla frumvarpi er ætlað að taka, það er í rauninni ekkert lítið, það er mjög stórt. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.

Ég ætla að fara rétt aðeins í gegnum það, frú forseti, með mjög einföldu dæmi hvernig menn geta búið til eigið fé. Segjum að maður nokkur eigi 10 milljónir. Hann stofnar hlutafélag A og leggur þessar 10 milljónir inn í hlutafélagið. Þá á hann hlutabréf í hlutafélaginu upp á 10 milljónir og hlutafélagið á laust fé upp á 10 milljónir. Síðan stofnar hlutafélag A annað hlutafélag sem heitir B og leggur fram 10 milljónir í það, þá á A hlutabréf að virði 10 milljónir og hlutafélag B á 10 milljónir í lausu. Síðan stofnar B hlutafélagið C og leggur fram 10 milljónir í það, þá á það hlutabréf og hefur eigið fé upp á 10 milljónir en hlutafélag C á 10 milljónir. Þá gerist það að þeir sem stjórna þessu láta hlutafélag C kaupa hlutabréfin í A af manninum sem upphaflega lagði fram peningana. Það er kominn hringur sem er tómur. En ef menn skoða eitthvert þessara þriggja félaga sem mynda þennan hring þá virðist það eiga 10 milljónir í hlutabréfum og engar skuldir og virðist vera ljómandi gott fyrirtæki. Þá koma endurskoðendur og segja að samstæðureikningar geri ráð fyrir því að fyrirtækin verði öll metin sem ein heild, allur hringurinn, öll þessi þrjú fyrirtæki. Þá kemur náttúrlega í ljós að það er ekki króna inni í neinu þeirra. Til að komast hjá því þurfa menn að stofna þrjár hæðir af fyrirtækjum eða hvað á að kalla það, ég ætla ekki að fara nánar út í það, en það er hægt að komast hjá því. Það er sýnt nákvæmlega í fylgiriti í frumvarpinu hvernig er hægt að búa til 18 fyrirtæki með rekstur, með sjóðsflæði, með eigið fé, en það er ekki króna inni í dæminu. Það er í rauninni enginn sem á þau en það er einhver sem ræður öllu. Þetta er sýnt með dæmum og ég skora á þá sem hafa áhuga á þessu og nennu að setja sig inn í það til að átta sig á eiginleikum svona hringja því að þeir voru nefnilega út um allt. Það sem er merkilegt við þetta og sorglegt er að það er sennilega ekki lögbrot. Þetta er löglegt. Þetta gerist víða um heim.

Það sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir er að stofnaður verði nýr flokkur sem heiti gagnsæ hlutafélög, nákvæmlega eins og opinber hlutafélög, einkahlutafélög eða hlutafélög almennt, sem hafi þann eiginleika að upplýsa beri um allt eignarhald upp úr og niður úr. Allar „dætur“ og öll „börn“ félagsins, ef ég má orða það þannig, og barnabörn og barnabarnabörn og foreldrar og afar og ömmur og allir áar verði talin upp og vitað af. Eitt ákveðið fyrirtæki mætti aldrei samkvæmt frumvarpinu lána til eiganda síns eða forföður og heldur ekki kaupa eða veðsetja hlutabréf í honum til að koma í veg fyrir þessa hringi. Að því yrðu endurskoðendur og stjórnir að gæta að viðlögðum hörðum refsingum vegna þess að bann við hringferli fjár er meginástæða traustsins sem þessu formi er ætlað að vekja. Það er grundvallaratriði í þessari breytingu.

Velta mætti fyrir sér hvað gerðist ef banki væri gagnsætt hlutafélag. Þá mætti hann ekki eiga í lánaviðskiptum við eigendur sína. Það er mjög athyglisvert. Það yrði mjög athyglisvert. Hluthafar banka mættu hvorki taka viðskiptalán né neitt hjá þeim, sem þýðir að eigendurnir yrðu annaðhvort að vera fjársterkir einstaklingar sem þurfa ekki lán og alls ekki til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu, það yrði bannað, það kæmi í veg fyrir þessa hringferð fjár, eða lífeyrissjóðir eða aðrir aðilar sem hafa og eiga peninga. Ég held að við það að menn tækju ekki lán til að kaupa hlutabréf í banka yrði eigendahópurinn miklu stöðugri, hann yrði raunverulegur bakhjarl. Það er nú kannski akkúrat það sem Íslendingar þurfa nú á dögum.

Ég hef rætt hér áður um alþjóðlega samþættingu hlutafélaga og hvernig hún gengur fyrir sig úti í hinum stóra heimi. Hlutafélagaformið er alþjóðlegt og þessi veila er því alþjóðleg, hún er um allan heim, hún er ekki bara hér á landi. Við höfum heyrt ávæning af því hvernig þetta var og hefur verið gert. Stundum beinlínis með glæpsamlegum aðferðum og stundum ekki, þar sem veilan er bara notuð. Það hefur t.d. verið bent á að í Bandaríkjunum og Japan sé mjög víðtækt gagnkvæmt eignarhald og það mætti benda á að Deutsche Bank á sennilega í velflestum stærri fyrirtækjum í Þýskalandi og reyndar um allan heim. Þau sömu fyrirtæki eiga svo í Deutsche Bank. Við getum tekið dæmi: Dresdner Bank á í Deutsche Bank og Deutsche Bank á í Dresdner Bank. Ef þessi fyrirtæki mundu skiptast á bréfum og Deutsche Bank mundi kaupa sín eigin bréf af Dresdner Bank og öfugt þá yrðu bréfin verðlaus vegna þess að eigin hlutabréf í hlutafélagi eru í eðli sínu verðlaus — það er hægt að gefa út eins mikið og menn vilja af þeim — og það mundi þýða að heilmikið eigið fé hyrfi. Úr þýsku efnahagslífi eða atvinnulífi mundi hverfa heilmikið fé sem sýnt er á pappírunum í dag. Þess vegna er þetta mjög mikið mál og varðar alveg gífurlega hagsmuni.

Ég hef grun um að það verði dálítið erfitt fyrir Evrópusambandið að koma með breytingar sem laga þessa veilu vegna þess hvað hagsmunirnir eru gífurlegir. En hagsmunir hinna minni hluthafa eru ekki síðri, að fyrirtækin sýni raunverulegt eigið fé, og traust þeirra á hlutabréfaforminu hlýtur að vera háð því að það sé í lagi. Sama á við um alls konar birgja, menn sem eiga viðskipti við hlutafélög, þeir líta á ársreikninginn og segja: Heyrðu, það er ágætt eigið fé hjá þeim og góður hagnaður, ég get vel átt í viðskiptum við þá án þess að fá tryggingar. Ef svo kemur í ljós að þetta eigið fé og hagnaðurinn er ekki raunverulegur og getur bara hrunið, sprungið eins og blaðra í afmælisveislu, þá hljóta menn náttúrlega að vera miklu varkárari vegna þess að öll þessi viðskipti byggja mikið á trausti.

Hér varð mikið hrun. Fyrsta áfallið sem þjóðin varð fyrir var sennilega eignahrunið þegar öll hlutabréf meira og minna, rjóminn af íslenskum hlutabréfum, urðu verðlaus á einni nóttu og þúsundir milljarða hurfu, hjá einstaklingum voru það örugglega um 80 milljarðar sem hurfu, hjá venjulegum fjölskyldum. Svo voru nokkrar fjölskyldur, kannski 100, sem áttu miklu meira og voru skuldsettar á móti, hjá þeim hurfu eignirnar en skuldirnar sitja eftir.

Næsta skref voru uppsagnir. Það voru skelfilegir dagar þegar verið var að segja upp fólki hjá bönkunum, hafa starfsmenn sagt mér, þegar verið var að pikka út: Þér er sagt upp, þér er ekki sagt upp, þér er sagt upp o.s.frv. Fólk sem var kannski með mjög góð laun, jafnvel milljónir á mánuði, varð allt í einu atvinnulaust og allt sem það hafði byggt upp, fjárfestingar, hús og bílar o.s.frv., öllum grundvellinum var kippt undan því. Það var fyrsta áfallið. Svo fóru fylgiáhrifin að koma þegar fyrirtæki sem áttu í þessum fyrirtækjum eða voru háð þeim á einhvern hátt með lánveitingar og annað slíkt urðu gjaldþrota.

Þá kom næsta bylgja þegar atvinnuleysið jókst hröðum skrefum. Því miður hefur ríkisstjórnin algjörlega brugðist að mínu mati í því að minnka atvinnuleysið, forsenda þess er að við búum til nýja atvinnu. Við verðum að mynda umgjörð fyrir nýja atvinnu. Hvernig skyldi nú atvinna verða til, frú forseti? Hún verður ekki til nema með fjárfestingu. Það verður aldrei nein atvinna til nema með fjárfestingu. Fjárfestingin verður til með fjármagni sem kemur aðallega úr tveim áttum: Það er annars vegar áhættufé eða hlutafé og hins vegar lánsfé eða sparifé. Báðir þessir þættir hafa lent í óskaplegu áfalli. Menn eru mjög illa brenndir. Ég mundi segja að sá maður sem færi að fjárfesta og kaupa hlutabréf í dag — ég mundi bara segja við hann: Ætlarðu ekkert að læra, vinur? — það er grundvöllurinn. Sérðu ekki hvernig fór? Og allir mundu segja: Hvað, ert þú að fara að fjárfesta, hvað ertu að hugsa? Forsendunum hefur nefnilega ekki verið breytt í hlutabréfaforminu. Þetta frumvarp gengur út á að breyta því þannig að menn lendi ekki í nákvæmlega sömu ævintýrunum aftur. Og lánveitendur — erlendir lánveitendur — lánuðu 12 þús. milljarða, frú forseti, til Íslands. Þeir peningar fóru flestir aftur beint til útlanda í fjárfestingar út um allt, en engu að síður voru þetta gífurlegir fjármunir. Þessir aðilar eru illa brenndir — mjög illa brenndir. Þeir eru búnir að tapa helmingnum af þeim 12 þús. milljörðum, hafa tapað 6 þús. milljörðum, sem er fjórföld þjóðarframleiðsla Íslands. Þeir fara ekkert að lána Íslendingum, það er alveg sama þótt við samþykkjum Icesave eða gerum hvað sem er. Það vantar traustið.

Til að byggja upp traust er nauðsynlegt að breyta veilunni í hlutabréfaforminu. Það er nauðsynlegt þannig að fólk treysti sér til að kaupa aftur hlutabréf, fólk treysti því að það sé í lagi að lána til hlutafélaga, bankarnir fari að treysta fyrirtækjunum og lána þeim. Það vantar líka traust þar. Núna vita nefnilega allir af þessari veilu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að veilunni sé eytt, hún sé löguð. Það er von flutningsmanna að með því náist að byggja aftur upp traust á hlutabréfaforminu, bæði hjá fjárfestum og lánveitendum, vegna þess að það eru gífurleg tækifæri í íslensku atvinnulífi núna. Það eru gífurleg tækifæri til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi vegna þess hve langt það er komið niður og hve miklir möguleikar eru á að byggja það upp. En það vantar traust.

Ég skora á hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar — ég hef lagt til að frumvarpinu verði vísað til hv. viðskiptanefndar — að hún skoði mjög vandlega hvort það sé ekki nauðsynlegt að samþykkja slík frumvörp til að geta sagt við alla fjárfesta: Við erum búin að laga þá veilu sem er í dagblöðum alla daga um milljarða tilfærslur til og frá og var aðallega beint gegn litla hluthafanum. Við erum búin að laga veiluna og nú getið þið aftur farið að fjárfesta. Þeir sem eru illa farnir eftir hrunið eiga ekkert lengur til að fjárfesta en það eru hugsanlega einhverjir sem eiga eitthvað eftir og aðrir sem safna fé með því að spara og sýna ráðdeild. Ef þetta yrði samþykkt væri hægt að segja við þetta fólk að búið sé að breyta hlutabréfaforminu og nú sé skynsamlegt að fjárfesta. Ég hugsa að það sé miklu gæfulegra en það sem menn hafa verið að reyna að gera, að veita skattafslætti fyrir þá sem fjárfesta í nýsköpun eða eitthvað slíkt.