Staða innanlandsflugs

Mánudaginn 31. janúar 2011, kl. 15:47:09 (0)


139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

staða innanlandsflugs.

[15:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hæstv. ráðherra hætti. Það eru þau orð að það eigi að hlífa innanlandsfluginu, mér finnst þau svolítið lýsandi fyrir viðhorf almennt til almenningssamgangna á Íslandi, það á að hlífa þeim, það á sem sagt ekki að hætta þeim. Mér finnst hins vegar að við ættum að gefa í, mér finnst að við eigum að setja meiri pening í almenningssamgöngur vegna þess að mér virðist að í hvert einasta skipti sem við tölum um samgöngumál komi skrímsli í ljós. Það heitir einkabíllinn og allir þeir fjármunir sem við verjum til vegakerfisins. Það eru 20 milljarðar núna, að jafnaði hafa það verið 30 milljarðar á ári. Þessir peningar streyma út úr ríkiskassanum vegna þess að við Íslendingar leggjum eiginlega enga áherslu á almenningssamgöngur.

Það er algjörlega nauðsynlegt að við innleiðum einhverja langtímahugsun í samgöngumálum til að reyna að vinna bug á þessu risastóra skrímsli. Ef við horfumst ekki í augu við það að á meðan við leggjum ekki áherslu á almenningssamgöngur og á meðan við eflum ekki innanlandsflug munu áfram streyma úr ríkissjóði gríðarlegar fjárhæðir til að byggja mislæg gatnamót, tvöfalda vegi, byggja nýja vegi o.s.frv. Ef við gerðum eins og aðrar þjóðir, legðum verulegan og vaxandi pening í almenningssamgöngur, fælist í því mikill og raunverulegur sparnaður til langs tíma.

Það er stórmerkilegt hvað það gengur erfiðlega að fá þessa umræðu af stað á Íslandi og hvað hún er skammt á veg komin. Hún birtist m.a. í orðum hæstv. ráðherra, í orðunum að stefnan sé að hlífa almenningssamgöngum, (Forseti hringir.) sem sagt ekki leggja þær af og þaðan af síður á að efla þær.