139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, það er mjög mikilvægt að þingið fari vandlega í gegnum þær tilskipanir sem Evrópusambandið dælir yfir okkur. Menn hafa yfirleitt haft þá trú að Evrópusambandið sé óskeikult og viti nefi sínu framar en nú hefur komið í ljós um t.d. innlánstryggingartilskipunina að hún er meingölluð og hefur kostað okkur Icesave sem við þekkjum. Hún hefur heldur ekki tekið á vandanum um eignarhald á hlutafélögum og gagnsæi og raðeignarhaldi og krosseignarhaldi sem ég tel persónulega að hafi átt stóran hlut í hruninu á Íslandi. Hún skipaði Alþingi að leyfa einkahlutafélögum og hlutafélögum að lána starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum, m.a.s. tengdum aðilum sem varð til þess að fyrirtæki, sérstaklega bankarnir á síðustu dögunum, notuðu það til að auka eigið fé sitt og plata matsfyrirtækin. Það er ekki allt gott sem kemur frá Evrópusambandinu og þarf virkilega að skoða nákvæmlega hvað það er að gera. Ég held að við ættum að vera miklu duglegri í því að finna veilur í þeim tilskipunum sem koma frá Evrópusambandinu og benda því góðfúslega á að laga þær því að þær geta skaðað, ekki bara Íslendinga heldur líka viðkomandi ríki.