Skipun stjórnlagaráðs

Fimmtudaginn 03. mars 2011, kl. 16:42:08 (0)


139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur fundist skorta í umræðuna um þetta allt útskýringar stjórnvalda og sleggjudómalausa umræðu. Það er iðulega talað um þetta sem hæstaréttardóm. Þetta er ekki hæstaréttardómur, þetta er stjórnvaldsákvörðun. Á því tvennu er mjög mikill munur. Það er gríðarlegur munur á hæstaréttardómi og stjórnvaldsákvörðun og við getum ekki látið eins og þetta sé hæstaréttardómur.

Mitt fyrsta val hefði verið að kjósa aftur en miðað við aðstæður tel ég að stjórnlagaráð sé besta lausnin. Ég vil einnig benda á að ef fara ætti aftur í kosningar er það gífurlega ósanngjarnt gagnvart þeim 25 sem náðu kjöri og líka gagnvart öðrum sem buðu sig fram, lögðu í þetta mikla vinnu og kostnað og þyrftu þá að taka ákvörðun um hvort þau fara aftur í slaginn eða draga framboð sitt til baka. Það er erfið spurning.

Við erum í mjög þröngri stöðu. Eins og þetta blasti við mér var enginn kostur í stöðunni frábær en miðað við aðstæður fannst mér þetta vera besti kosturinn.