Staða rannsóknar embættis sérstaks saksóknara

Mánudaginn 14. mars 2011, kl. 16:31:03 (0)


139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

staða rannsóknar embættis sérstaks saksóknara.

503. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin til þessa, veit sem er að hann á eftir að svara einni spurningu sem hann gerir ef til vill í seinni innkomu sinni. Ég þakka honum fyrir svörin sem voru vel undirbúin og til fyrirmyndar.

Ég vil nota tækifærið í þessu samtali mínu við hæstv. innanríkisráðherra til að ljúka lofsyrði mínu á verk og alla framkomu sérstaks saksóknara, Ólafs Þórs Haukssonar, sem að mati þess sem hér stendur hefur farið fram með mjög ábyrgum og viðeigandi hætti í öllu þessu máli, jafnt í samskiptum við fjölmiðla og aðra, þannig að því sé til haga haldið.

Það vantar seinni hluta spurningar minnar: Er hætt við að mál einhverra manna sem tengjast rannsókninni fyrnist áður en rannsókn lýkur? Og hvenær er þess að vænta að rannsókninni ljúki?

Eins og heyra mátti á svari hæstv. ráðherra er málið óhemju viðamikið og þær tölur sem hæstv. ráðherra nefndi bera þess vitni, 1.340 mál, 216 sakborningar, 600 yfirheyrslur, þar að hefur 471 komið þannig að nokkrir hafa komið oftar en einu sinni eins og ráðherra gat um. Sú fyrirspurn sem hér er fram sett er ekki til þess að þrýsta á hæstv. ráðherra að ljúka þessu máli, enda er það í verkahring viðkomandi saksóknara að meta þann tíma sem þarf að fara í verkið, heldur snýst hún miklu fremur um að almenningur geti fylgst með framþróun eins mikilvægasta dómsmáls sem íslenskt réttarríki hefur ráðist í á undanförnum áratugum.