Upplýsingamennt í grunnskólum

Mánudaginn 14. mars 2011, kl. 17:22:32 (0)

139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

upplýsingamennt í grunnskólum.

499. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. ráðherra um mikilvægi upplýsinga- og gagnamiðstöðva í skólastarfi 21. aldarinnar. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að leik- og grunnskólar eru á forræði sveitarfélaga en við megum ekki gleyma því að Alþingi setur lög um þessi skólastig og mennta- og menningarmálaráðuneytið setur reglugerðir í formi námskráa og sinnir líka eftirliti með framfylgd laganna. Því finnst mér að við eigum að ræða hér í þingsal Alþingis um stefnumarkandi atriði eins og stöðu upplýsinga- og gagnamiðstöðva grunnskólanna.

Ég veit að hæstv. ráðherra er sérstaklega umhugað um læsi í víðasta skilningi þess orðs og deili ég þeim áhuga með henni. Í frumvarpi til laga um fjölmiðla er t.d. talað um mikilvægi þess að efla fjölmiðlalæsi barna og unglinga og þannig enn frekar lögð áhersla á mikilvægi læsis. Þegar spara þarf og hagræða í skólastarfi virðist almennt ríkja sú vinnuregla að skera niður það sem ekki telst til hefðbundins bóknáms. Það virðist auðveldast og einfaldast en mér finnst við verða að spyrja okkur mjög ákveðið þeirrar spurningar hvort það sé örugglega það sem nýtist framtíðarborgurum landsins best.

Staðan er því miður þannig að í mörgum skólasöfnum grunnskóla landsins er til góður bókakostur sem stendur lítt notaður vegna þess að kennsla á söfnunum og kennsla um notkun þeirra, svokölluð skólasafnakennsla, er orðin afar takmörkuð og almennir kennarar telja sig hafa takmarkaða þekkingu og tíma til að setja sig inn í þau mál. Þannig er hjarta skólamenningarinnar sem skólasöfnin geta verið kippt úr sambandi og söfnin gerð að líflausu herbergi með bókum sem enginn starfsmaður sér um að gera aðlaðandi eða gera bækurnar og upplýsingarnar sem þær geyma að eftirsóknarverðum kosti til góðrar og fjölbreyttrar menntunar nemenda og starfsfólks.

Staðan í notkun tölva í skólastarfi virðist því miður vera á svipuðum slóðum. Tölvurnar eru annar lykill að upplýsingasamfélagi 21. aldarinnar en möguleikar þeirra eru ekki fullnýttar í menntuninni ef tölvukennsla minnkar stöðugt. Hið fjölbreytta námsefni sem til er á tölvutæku formi og á netinu er nú minna notað en áður. Það er alvarlegt mál því tölvan opnar fyrir marga nemendur nýjar víddir í námi, önnur færni nýtist en þegar bækur eru notaðar og umhverfi tölvanna er mörgum nemendum vel þekkt og öruggt og því tilvalið að nýta það til að örva þá til dáða í námi. Um leið undirbúum við þá einstaklinga sem við þurfum svo sárlega á að halda núna út í atvinnulífið. Einstaklinga með þekkingu á tækni og þor til að feta nýjar brautir og stuðla þannig að nýsköpun í tæknigeiranum.

Í flestum skólum er allt til staðar til að nýta skólasöfnin og tölvurnar. Menntaðir kennarar á þeim sviðum og góð efnisleg aðstaða. Það er því skelfileg skammsýni að nýta þann mannauð og efnisauð eins illa og niðurskurðarkröfur gera ráð fyrir.

Ég hlakka til að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við hugrenningum mínum og vona svo sannarlega að hún sé sammála mér um að finna þarf virkan samráðsvettvang ríkis, sveitarfélaga og fagfólks þar sem unnið verður að því að móta stefnu í þessum málaflokki þannig að við horfum öll (Forseti hringir.) í sömu átt, markvisst og til framtíðar, og að nemendur sem útskrifast úr grunnskólum landsins næstu árin verði lesandi og leitandi (Forseti hringir.) einstaklingar sem við þurfum svo sárlega á að halda (Forseti hringir.) í upplýsingasamfélagi 21. aldarinnar.