Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 14:40:47 (0)


139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Með því eru lagðar til nauðsynlegar lagfæringar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, m.a. til að skýra hlutverk landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna.

Nefndin fjallaði um málið sem er að nokkru leyti viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar sl. um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings. Eftir þá ákvörðun hefur verið talið nauðsynlegt að skoða hvort ákvæði gildandi laga um þjóðaratkvæðagreiðslur standist þær kröfur sem gerðar eru til kosningalöggjafar.

Nefndin fjallaði um talningu atkvæða en samkvæmt lögunum skal talning fara fram á einum stað fyrir landið í heild. Við meðferð frumvarps sem varð að lögum nr. 4/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, svonefndan Icesave-samning, var rætt um hvort leggja ætti til að talning færi fram á einum stað í stað þess að talið yrði í kjördæmum eins og venja er í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum, en fallið var frá því í ljósi þess skamma fyrirvara sem var til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við meðferð frumvarps sem varð að lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna taldi meiri hluti nefndarinnar að þegar litið væri til eðlis þjóðaratkvæðagreiðslu og þess að atkvæði vega jafnt væri mjög mikilvægt að talning færi fram á einum stað fyrir opnum dyrum og að niðurstöður væru birtar fyrir allt landið í heild. Það hefði í reynd engan tilgang að birta úrslit í hverju kjördæmi fyrir sig. Meiri hlutinn tekur þó undir þau sjónarmið er fram hafa komið fyrir nefndinni að nokkur rök eru fyrir því að talning fari fram í hverju kjördæmi fyrir sig þar sem þar er byggt á margra ára reynslu þeirra sem hafa starfað við kosningar — má þar nefna vant talningafólk, kjörstjórnir og yfirkjörstjórnir — og enn fremur að það sé tafsamara að flytja kjörgögn og kjörkassa á einn stað. Þá sé um verulegan fjölda kjörkassa að ræða af mismunandi stærðum og gerðum sem síðan þarf að endursenda að talningu lokinni.

Meiri hlutinn telur í ljósi þessa, og enn fremur sakir þess að skammur tími er fram að atkvæðagreiðslunni, að nauðsynlegt sé að undirbúa það betur ef telja á á einum stað. Auk þess er rétt að kanna nánar möguleika þess að nota rafræna kjörskrá við framkvæmd kosninga. Meiri hlutinn leggur því til nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu til þess að unnt sé að telja atkvæði í hverju kjördæmi fyrir sig. Meiri hlutinn telur þó rétt að taka fram að landskjörstjórn skuli birta tölur fyrir landið í heild eins og gert var við síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi gildi laga nr. 1/2010. Þar fór talning fram í hverju kjördæmi og gafst sú tilhögun vel.

Við í meiri hluta nefndarinnar teljum engu að síður nauðsynlegt að vinna að því áfram að talning við þjóðaratkvæðagreiðslur geti farið fram á einum stað fyrir landið í heild og enn fremur að stefnt verði að rafrænni talningu og rafrænni kjörskrá. Telur meiri hlutinn því þörf á að fram fari heildarendurskoðun á kosningalöggjöfinni, m.a. svo unnt sé að bæta verklagið í heild. Meðal annars er æskilegt að þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram samtímis sveitarstjórnarkosningum sem ekki er mögulegt núna af tæknilegum ástæðum.

Nefndin fjallaði sérstaklega um þær kæruleiðir sem eru í lögunum samanborið við þær sem eru í lögum nr. 4/2010, um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010. Samkvæmt 12. gr. þeirra skulu kærur um ólögmæti þeirrar atkvæðagreiðslu, aðrar en refsikærur, sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 10. gr. sömu laga. Í skýringum við ákvæðið kemur fram að kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar og meðferð þeirra verði sendar landskjörstjórn til úrlausnar eins og þar greinir. Kemur fram að þar sé um að ræða sambærilegt fyrirkomulag og í forsetakosningum, að því frátöldu að landskjörstjórn hefði með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum. Dómstólar ættu svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reyndi.

Á fundi nefndarinnar var rætt um að 13. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, yrði með þeim hætti að landskjörstjórn í stað Hæstaréttar úrskurðaði jafnframt um lögmæti atkvæðagreiðslunnar og var þá vísað til þess fyrirkomulags sem er í 11. gr. laga nr. 4/2010. Í umræðunni komu fram spurningar um það hvort mál til ógildingar þjóðaratkvæðagreiðslu gæti sætt flýtimeðferð og um málshöfðunarfresti. Telur meiri hlutinn að af ákvæðum 123. gr. laga um meðferð einkamála verði ráðið að krafa um ógildingu atkvæðagreiðslu í tilefni af úrskurði landskjörstjórnar sæti flýtimeðferð. Um meðferð slíkra mála fari að öðru leyti eftir 124. gr. sömu laga.

Meiri hlutinn telur að í ljósi þess að framkvæmd þeirrar atkvæðagreiðslu gekk vel sé rétt að fela landskjörstjórn úrskurðarvald um lögmæti atkvæðagreiðslunnar og leggur því jafnframt til að við frumvarpið bætist ný grein sem felur í sér breytingu á 10. gr. laganna til samræmis við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 4/2010.

Meiri hlutinn leggur því til að í 13. gr. laganna verði kveðið á um að kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skuli sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er í 10. gr.

Meiri hlutinn tekur fram að með því að gera ráð fyrir því að landskjörstjórn komi saman til sérstaks fundar til þess að úrskurða um ágreiningsseðla og eftir atvikum fram komnar kærur er lagt til að 13. gr. verði breytt til samræmis og er þá tekið mið af 12. gr. laga nr. 4/2010. Þá er í 2. mgr. lagt til að tekin verði upp sambærileg regla og nú er í 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna um að gallar á kosningu leiði ekki til ógildingar kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Nefndin fjallaði einnig um skipun umboðsmanna en fram komu ábendingar frá landskjörstjórn um að æskilegt væri að ákvæðið um skipun umboðsmanna skv. 3. mgr. 9. gr. laganna yrði gert skýrara. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að landskjörstjórn skipi umboðsmenn sem hafi það hlutverk að gæta sjónarmiða andstæðra fylkinga við atkvæðagreiðsluna og úrlausn ágreiningsmála. Ekki er nánar tilgreint hvernig umboðsmenn skuli skipaðir, hvort þeir skuli vera í hverju sveitarfélagi eða í hverri kjördeild. Telur landskjörstjórn nauðsynlegt að það komi ótvírætt fram í greininni hvort átt sé við umboðsmenn sem gæti hagsmuna andstæðra fylkinga við störf landskjörstjórnar eingöngu eða hvort landskjörstjórn beri einnig að skipa umboðsmenn í kjördæmunum eða kjördeildum sem gæti hagsmuna fylkinganna við framkvæmd kosninganna gagnvart landskjörstjórn.

Í lögum nr. 4/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, er efnislega samhljóða ákvæði og kom fram fyrir nefndinni að við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar hefðu tveir umboðsmenn verið skipaðir í hverju kjördæmi. Var kjósendum þannig gert kleift að koma athugasemdum sínum og umkvörtunum á framfæri við umboðsmennina. Við val á umboðsmönnum var byggt á því hvað mætti telja valinkunna einstaklinga í því sambandi, samanber til hliðsjónar ákvæði þess efnis í lögunum um kosningar til Alþingis.

Meiri hlutinn fellst á þau sjónarmið og telur eðlilegt að skipaðir séu umboðsmenn í hverju kjördæmi sem hafi það hlutverk að gæta sjónarmiða andstæðra fylkinga við atkvæðagreiðsluna, talningu atkvæða og úrlausn ágreiningsmála. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á 3. mgr. 9. gr. þar sem kveðið er á um þessa tilhögun.

Nefndin fjallaði einnig um það hlutverk umboðsmanna samkvæmt frumvarpinu að gæta sjónarmiða andstæðra fylkinga og þá hvort unnt væri að orða ákvæðið á annan hátt. Við meðferð frumvarps er varð að lögum nr. 4/2010 lagði allsherjarnefnd til þá breytingu að í stað þess að landskjörstjórn skipaði umboðsmenn til að gæta sjónarmiða andstæðra fylkinga við atkvæðagreiðsluna og úrlausn ágreiningsmála, eins og lagt var til í frumvarpinu, skyldi hún skipa umboðsmenn til að gæta tveggja ólíkra sjónarmiða. Lögin nr. 4/2010 voru sérlög um þá þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. hvort lögin ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi, og voru sjónarmiðin í því tilfelli tvö. Það frumvarp sem hér er til meðferðar varðar breytingar á almennum lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þá geta sjónarmiðin verið fleiri en tvö. Meiri hlutinn telur því rétt að leggja til að orðalagið miðist við að landskjörstjórn skipi umboðsmenn til að gæta ólíkra sjónarmiða og meti þá hversu mörg sjónarmiðin eru hverju sinni.

Þá fjallaði nefndin einnig um gildi atkvæða en í 4. gr. frumvarpsins segir að til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þurfi hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni. Sambærilegt ákvæði er í 100. gr. laga um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um að atkvæði skuli meðal annars meta ógilt ef kjörseðill er auður. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um þetta þar sem annars væri unnt að líta svo á að auðir seðlar og ógildir gætu verið túlkaðir sem andvígir tillögunni að þessu leyti. Meiri hlutinn telur eðlilegt að það verði kynnt fyrir kjósendum að auðir og ógildir seðlar hafi ekki þýðingu varðandi það hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er.

Meiri hlutinn bendir á að nokkurs misræmis gæti í lögunum um kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar Alþingi ályktar og svo þess þegar þjóðaratkvæðagreiðsla skal fara fram á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar. Meiri hlutinn leggur ekki til breytingu á þessari grein en telur nauðsynlegt að málið verði tekið upp og skoðað. Meiri hlutinn telur engu að síður að þetta misræmi geti ekki komið í veg fyrir að á vegum ráðuneytisins fari fram fagleg kynning á því málefni sem kosið er um.

Meiri hlutinn telur að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu nauðsynlegar til þess að skýra betur þau ákvæði sem lúta að framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og talningu atkvæða og að nauðsynlegt sé að afgreiða frumvarpið sem allra fyrst þar sem skammur tími er til stefnu. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fylgja með í því nefndaráliti sem ég hef hér rakið.

Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd, er samþykkur þessu áliti sem að öðru leyti er undirritað af þeim sem hér stendur og hv. þm. Merði Árnasyni, Ólafi Þór Gunnarssyni og Álfheiði Ingadóttur, og hv. þm. Birgi Ármannssyni og Sigurði Kára Kristjánssyni sem skrifa undir það með fyrirvara.