Mannanöfn

Þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 22:30:14 (0)


139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

mannanöfn.

378. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem er á þskj. 929, um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1996, um mannanöfn, með síðari breytingum.

Allsherjarnefnd hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti og Skúla Guðmundsson frá Þjóðskrá Íslands.

Umsagnir bárust nefndinni frá Baháí-samfélaginu, mannanafnanefnd og Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi.

Með frumvarpinu er lagt til að mál er varða mannanöfn verði afgreidd á einum stað, hjá Þjóðskrá Íslands, í stað þess að þau séu afgreidd þar eða í innanríkisráðuneyti.

Nefndin fjallaði um málið og telur að með breytingunum verði stjórnsýsla þeirra mála einfölduð gagnvart borgurunum og umsóknir afgreiddar hjá Þjóðskrá Íslands sem er lægra sett stjórnvald.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í fyrsta lagi að í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í 1. gr. komi: ráðherra.

Í öðru lagi að 5. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Hv. þm. Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Undir álitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Atli Gíslason, Mörður Árnason, Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson.