Kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál

Miðvikudaginn 16. mars 2011, kl. 14:12:47 (0)


139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Fyrst um atvinnumálin. Tækifærin eru mýmörg og ég hvet til þess að við horfum til vaxtarbrodda í hugverkaiðnaði, sem eru mjög miklir, og í ferðamennsku og að við notum hina hreinu orku sem við búum yfir til að byggja upp fjölbreytta flóru fyrirtækja, lítilla og meðalstórra. Við gætum þá horfið dálítið frá þeirri atvinnuuppbyggingarstefnu sem hefur verið iðkuð á undanförnum árum.

En ég ætlaði ekki að tala um þetta, ég kom hingað upp til að tala um heimasíðu Alþingis í samhengi við frekar lága tölu um traust til Alþingis og virðingu til Alþingis sem mælist 7% í könnunum. Þetta lýtur þá að spurningunni um það hvernig við á þessum vinnustað getum gengið á undan með góðu fordæmi og reynt að gera þennan vinnustað betri fyrir okkur og aðra. Athygli mín hefur verið vakin á því að heimasíða Alþingis virðist ekki vera vottuð fyrir hreyfihamlaða, sjónskerta eða heyrnarskerta eins og margar aðrar síður og það eru til sérstök vottunarfyrirtæki sem fara í gegnum heimasíður til að gera þær þannig úr garði að allir geti lesið þær.

Mér finnst einkar mikilvægt að við förum í saumana á þessu vegna þess að viðhorfið til Alþingis er, eins og ég segi, ekki endilega það besta og jafnvel þótt það væri betra þyrftum við samt að gera þetta. Ein ástæðan fyrir því að viðhorfið er kannski ekki alveg nógu gott er að við gerum ekki svona hluti, að heimasíðan er ekki vottuð fyrir sjónskerta, heyrnarskertra, hreyfihamlaða og fleiri. Ef við mundum gera þetta, kannski ekki stærsta málið á Íslandi en þó eitthvað sem við gætum gert til að gera heiminn kannski aðeins betri fyrir suma, ættum við síðan að halda áfram að gera Alþingi til fyrirmyndar. Þá vil ég nefna að lokum (Forseti hringir.) umhverfismálin. Við getum gert þennan vinnustað miklu umhverfisvænni.