Kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál

Miðvikudaginn 16. mars 2011, kl. 14:31:23 (0)


139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góð orð en svartsýni og heimsendaspár eiga ekki eftir að koma okkur neitt áfram í þessum verkefnum. (ÞKG: … koma okkur áfram.) Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði áðan að það væri kominn tími til að fólk áttaði sig á efnahagsástandinu og skelfilegri stöðu þess. (Gripið fram í.) Auðvitað er langt síðan íslenska þjóðin áttaði sig á því, það var í október 2008. (JónG: Ekki ríkisstjórnin.) Og frá því í október 2008 hefur hún sem betur fer tekið framförum jafnt og þétt. Það er rétt og það er raunsætt að vöxtur er ekki hafinn en samdrátturinn hefur verið stöðvaður og hann fór minnkandi frá ári til árs. Allir spáaðilar spá nú vexti í efnahagsstarfseminni á þessu ári, frá 0,7% upp í svona 2%, og auðvitað vildum við að atvinnuuppbyggingin og verðmætasköpunin væru hraðari og öflugri. En tækifæri okkar eru mýmörg, ferðaþjónustan getur sótt fram þegar á þessu ári. Við eigum sannarlega tækifæri þar. Þekkingariðnaðurinn hefur verið að eflast, meira að segja í gegnum þessar þrengingar. Sjávarútvegurinn hefur skilað gríðarlega góðri afkomu og verð á áli á heimsmarkaði hefur skilað stóriðjunni býsna miklum árangri.

Það eru þess vegna allar forsendur til þess, ekki bara að stöðva samdráttinn eins og ríkisstjórninni hefur þegar tekist, heldur að hefja vöxt og sókn til bættra lífskjara og vinna á atvinnuleysinu. Við Íslendingar höfum sem betur fer sýnt sögulega fram á að við erum fær um að rífa okkur út úr kreppum á ótrúlega stuttum tíma. En við höfum ekki gert það með því að karpa hér í stólnum hvert við annað, heldur með því að þessi 0,3 milljóna manna þjóð tekur höndum saman sem einn maður, atvinnulíf, launafólk og stjórnmálalíf, og vinnur saman að því verkefni að (Forseti hringir.) minnka atvinnuleysi til muna og gera lífskjörin í landinu viðunandi á ný.