Þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið

Miðvikudaginn 16. mars 2011, kl. 17:51:21 (0)


139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

532. mál
[17:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Frumvarp þetta var lagt fram á 138. löggjafarþingi en fékk ekki endanlega afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram með einni breytingu sem felur í sér að horfið er frá því að fella niður leyfisskyldu fyrir notkun fánans í vörumerkjum sem skal skrásetja, en sú breyting er í samræmi við ábendingu og að höfðu samráði við Einkaleyfastofu sem telur að leyfisskylda í þessum tilvikum sé í betra samræmi við alþjóðasamþykktir á þessu sviði.

Tilgangur frumvarpsins er að auka heimildir til notkunar þjóðfánans til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu með því að veita almenna heimild til slíkrar notkunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Má ætla að notkun fánans í þessum tilvikum geti verið til þess fallin að efla atvinnulíf og efnahag landsmanna og verka sem jákvætt skref í endurreisn á íslensku efnahagslífi. Í þessu sambandi má hafa til hliðsjónar skipan þessara mála í Danmörku en þar hefur danski fáninn um langt skeið verið notaður til markaðssetningar á dönskum vörum án mikilla takmarkana. Hefur notkun fánans í þessum tilgangi almennt verið talin hafa haft jákvæða þýðingu fyrir danska framleiðslu, svo sem í landbúnaði, og verið ákveðinn mælikvarði á gæði.

Árið 1995 var skipuð nefnd til þess að endurskoða fánalögin, einkum það verndarákvæði sem hér á við. Lögunum var í framhaldi breytt með lögum nr. 67/1998, m.a. á þann veg að forsætisráðuneytið öðlaðist heimild til að veita leyfi til notkunar fánans á vörumerki eða söluvarning, umbúðir eða í auglýsingu á vörum enda væri starfsemi sú sem í hlut ætti að gæðum samkvæmt því sem ráðuneytið mælti fyrir um í reglugerð og fánanum ekki óvirðing gerð. Voru rök fyrir þessari heimild m.a. þau að auka þyrfti frjálsræði um notkun fánans með sérstöku tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu. Þegar til kom reyndist hins vegar örðugt að skilgreina hlutlægar gæðaviðmiðanir sem nýst gætu til að uppfylla þau skilyrði laganna á viðunandi hátt og hefur reglugerð af þeim ástæðum aldrei verið sett. Hefur því ekki verið hægt að verða við beiðnum um sérstakt leyfi til að nota fánann. Má því segja að markmið lagabreytinganna þá, um að auka frjálsræði um notkun fánans til markaðssetningar, hafi ekki náðst.

Frumvarpið er sett fram til að bregðast við þessu og lagt til að heimilt verði án sérstaks leyfis að nota hinn almenna þjóðfána í vörumerki eða söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu að uppfylltum þeim skilyrðum að varan eða starfsemin sem um er að ræða sé íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Loks er forsætisráðherra veitt heimild til þess að setja nánari ákvæði í reglugerð um skilyrði fyrir notkun fánans samkvæmt ákvæðinu og einnig að hann skeri úr álitaefni og ágreiningi sem upp kann að koma um leyfilega notkun fánans samkvæmt ákvæðinu.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þá erfiðleika sem mætt hafa mörgum íslenskum fyrirtækjum síðustu missirin hefur framleiðsla á íslenskum afurðum eflst og dafnað á ýmsum sviðum og ber að styðja við þann vöxt. Er það von mín að sú breyting sem hér er lögð til verði til þess að efla enn frekar íslenska framleiðslu og markaðssetningu.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur flutt tillögu til þingsályktunar um rýmri fánatíma. Ég hvet til þess að samhliða umræðu um þetta lagafrumvarp muni alþingismenn taka afstöðu til þeirra atriða sem fram koma í tillögu hv. þingmanns en um það urðu nokkrar umræður og það almennt jákvæðar á síðasta þingi þegar þetta mál var þar til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.