Svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum

Fimmtudaginn 17. mars 2011, kl. 11:14:47 (0)


139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé ærið tilefni til að ræða hvernig hæstv. forseti stýrir fundum. Það var ansi merkilegt að heyra það þegar hv. þingmaður stjórnarandstöðunnar, Sigurður Kári Kristjánsson, reyndi að halda ræðu áðan um fundarstjórn forseta að forseti tók upp á því að hringja inn atkvæðagreiðslu þannig að hv. þingmaður þurfti að hafa sig allan við til að halda þræðinum [Hlátur í þingsal.] við að gagnrýna fundarstjórn forseta. [Háreysti í þingsal.]

Þegar hæstv. forseti var búinn að hringja inn í atkvæðagreiðslu tók við mikill bjölluhljómur og hæstv. forseti barði bjölluna ótt og títt. Síðan kom hæstv. utanríkisráðherra sem er reyndar samflokksmaður hæstv. forseta og tjáði sig nær efnislega ekkert um fundarstjórn forseta, heldur fór í efnislega umræðu um önnur mál. Hæstv. forseti sat sem fastast og gerði engar athugasemdir við þann málflutning þannig að ég held að það sé efni til þess að gagnrýna þessa fundarstjórn mjög harðlega og minna hæstv. forseta á að hann er forseti (Forseti hringir.) allra þingmanna en ekki bara þingmanna Samfylkingarinnar.