Framtíð sparisjóðanna

Þriðjudaginn 22. mars 2011, kl. 15:06:39 (0)


139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[15:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði og að hluta til orð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um ástæðuna fyrir því að svona sé komið fyrir sparisjóðunum. Við verðum að horfast í augu við það að hlutirnir eru ekki bara svona af því bara, heldur vegna þess að við á Alþingi mótum laga-, rekstrar- og skattumhverfi þeirra fjármálafyrirtækja sem starfa á Íslandi, alveg eins og með öll önnur fyrirtæki. Við getum breytt hlutunum til batnaðar eða til hins verra eins og gerðist með sparisjóðina. Í dag höfum við möguleika á því að breyta enn á ný, búa til umhverfi sem hvetur til þeirra þátta sem við teljum skipta máli og er okkur mikilvægt í starfsemi sparisjóðanna. Núna um helgina var rifjuð upp með mér saga af Þorsteini Víglundssyni sem var einn helsti stofnandi og sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja. Sagan segir að hann og konan hans hafi ekki einu sinni átt reiknivél heldur fengið hana lánaða og svo eyddu þau kvöldunum í að snúa við rúllunum þegar þau reiknuðu saman innlánin og þau viðskipti sem þau áttu í. Svona var ráðdeildin, svona var hugmyndafræðin á bak við sparisjóðina, menn voru að fara með fé nágranna sinna og vildu gera það vel.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði, þegar við horfum á endurreisn sparisjóðanna, hvert við viljum stefna með þá, verðum við að taka tillit til þess að þetta eru ekki bara ríkissparisjóðir heldur er fjölbreytt eignarhaldið á bak við þá og það er ekki hægt að þvinga þá til að fara út í eitthvað sem þeir vilja ekki. Ég mótmæli því hins vegar harkalega að sparisjóðirnir sem heild hafi orðið að einhvers konar vogunarsjóðum, sérstaklega hvað varðar Sparisjóð Strandamanna og Sparisjóð Suður-Þingeyinga, og tek undir þær hugmyndir sem hafa komið hér fram um (Forseti hringir.) að hægt væri að byggja upp einhvers konar landshlutasparisjóði sem mundu veita öfluga og góða þjónustu á sínu starfssvæði.