Stefna Íslands í málefnum norðurslóða

Fimmtudaginn 24. mars 2011, kl. 17:37:59 (0)


139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að málefni norðurslóða eru auðvitað stórpólitískt utanríkismál fyrir okkur. Ég er einmitt að tala fyrir því hér að norðurslóðamálefnin eigi að vera þungamiðja í utanríkisstefnu okkar og muni verða það til langrar framtíðar. Um það erum við örugglega alveg sammála.

Hvernig þetta snertir síðan Evrópusambandsumsóknina, ég hef sagt og það sem ég er að reyna að segja er að ég tel að við eigum að móta stefnu okkar í norðurslóðamálum með þeim hætti sem hér er lagt til burt séð frá Evrópusambandsumsókninni og burt séð frá því hvort það verður á endanum samþykkt eða því hafnað að við göngum í Evrópusambandið. Ég tel að þetta sé mikilvægt í því efni.

Hvað varðar utanríkispólitíkina er það auðvitað svo að einstök aðildarríki Evrópusambandsins móta sína utanríkisstefnu og þau taka utanríkispólitískar ákvarðanir. Það veit hv. þingmaður. Það gera stór ríki eins og Þýskaland, Frakkland, Bretland o.s.frv. Að sjálfsögðu gera þau það, þau móta sína utanríkisstefnu, hafa sínar áherslur og gera alls konar samninga án aðildar Evrópusambandsins. Ég held að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af því.

Hitt er svo auðvitað rétt að Evrópusambandið hefur sýnt áhuga á norðurslóðasvæðinu og sótti m.a. fyrir allmörgum árum um aukaaðild eða áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu sem ekki hefur verið hafnað. Það hafa fleiri ríki gert. Það hefur Kína gert svo dæmi sé tekið. Það eru því fleiri ríki sem sýna norðurslóðum áhuga og ríkjasambönd, eins og ég reyndar rakti í framsöguræðu minni áðan. Auðvitað má finna tengingar með þessum hætti. En mér finnst fyrst og fremst að horfa eigi á norðurslóðastefnu okkar út frá okkar hagsmunum og hvað við viljum gera burt séð frá hvað verður svo um aðild okkar að Evrópusambandinu, (Forseti hringir.) hvort hún verður nokkurn tímann samþykkt yfirleitt eða hvað.