Aðgengi almennings að Vatnajökulsþjóðgarði

Mánudaginn 28. mars 2011, kl. 16:39:43 (0)


139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

aðgengi almennings að Vatnajökulsþjóðgarði.

501. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi mjög svo ánægjulegu svör þar sem tíminn dugði vart til að telja upp allt það sem er til staðar. Kannski var það einmitt tilgangurinn með fyrirspurninni, að gefa tækifæri til að gera grein fyrir hversu margt er í raun og veru í gangi. Einhvern veginn virðist vera svo að eitthvað skorti á að koma þessum upplýsingum á framfæri. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að heyra að til séu leiðir innan garðsins sem eru færar hreyfihömluðum, það er einstaklega ánægjulegt. Svo held ég að gestagöturnar með virkri fræðslu á ákveðnum stígum séu mjög spennandi.

Það er því greinilegt að ýmislegt er í gangi sem er afar gott. Vonandi mun þetta halda áfram. Ég legg sérstaka áherslu á að víða eru til gamlir stígar og gamlar leiðir sem eru jafnvel inni á skipulagi sveitarfélaga sem eiga land innan garðsins og spurning væri að reyna að nýta þær leiðir og merkja og koma betur í gagnið.

Ég þakka kærlega fyrir þessa löngu og góðu upptalningu og mun halda því á lofti að ýmislegt sé í boði fyrir fólk sem vill ferðast á mismunandi hátt innan þjóðgarðsins, þarna virðist hjólreiðafólk og reiðfólk og gangandi vegfarendur geta ferðast. Vonandi tekst okkur að koma þessum upplýsingum betur á framfæri þannig að fólk sjái að ýmislegt sé hægt að gera innan þjóðgarðsins, það séu ekki bara einhverjar upplýsingar sem liggja í útjaðri garðsins.