NATO, Líbía og afstaða VG -- kjarasamningar -- gjaldeyrishöft o.fl.

Þriðjudaginn 29. mars 2011, kl. 14:25:46 (0)


139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Fyrir nokkrum dögum komu fulltrúar frá Fjárfestingarstofu á fund þingflokks Samfylkingar og fengum við þar fróðlegt yfirlit yfir þau orkuverkefni sem eru á teikniborðinu og þau eru sem betur fer fjölmörg, snúast um fjölbreytta, vistvæna nýtingu á raforkunni. Má þar nefna kísilverksmiðju ThorSil í Þorlákshöfn, kísílgúrvinnslu í Grindavík, kísilverksmiðjuna í Helguvík, sem hefur verið rætt um og kynnt og undirritaðir samningar um og mun rísa fljótlega. Þá eru ótaldir Þeistareykirnir þar sem fimm aðilar eru taldir keppa um stórbrotna úrvinnslu á raforkunni. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað að senn dragi til tíðinda þar og vonum við að það gangi fram sem kostur er.

Fjölmargir orkunýtingarmöguleikar, sem eru að sjálfsögðu aflvélin út úr samdrætti og atvinnuleysi og inn í nýtt hagvaxtarskeið, eru því á teikniborðinu en mjög miklu skiptir að við höldum utan um og á lífi þeim raforkunýtingaráfanga sem hvað lengst er kominn sem eru álversáformin í Helguvík. Vonandi ræðst það á næstu dögum að HS Orka og Norðurál nái saman, nái að endurnýja orkusölusamning og nái þrætu sinni út úr gerðardómi í Svíþjóð.

En alvarleg tíðindi berast af stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og getu til að standa við sinn hluta raforkuöflunar til álvers í Helguvík. Orkuveitan hefur fjárfest í fimm túrbínum sem eiga að hluta til að standa undir raforkuframleiðslunni í Helguvík auk kísilverksmiðju ThorSil í Þorlákshöfn. Því hafa margir orðið til þess að velta því upp, og einnig sá sem hér stendur, hvort það sé mögulegt og gerlegt að Landsvirkjun komi með einhverjum hætti að álversverkefninu í Helguvík annars vegar með umframorku sinni í kerfinu og hins vegar með aðkomu að verkefnum Orkuveitunnar í Hverahlíðarvirkjun og Hellisheiðarvirkjunarstækkuninni. (Forseti hringir.)

Ég vil því nefna það við hv. formann iðnaðarnefndar hvort nefndin gæti tekið það til umfjöllunar og fengið úr því skorið með forustumönnum Orkuveitunnar og Landsvirkjunar (Forseti hringir.) hvort vilji standi til að gera þetta og hvort það sé gerlegt að Landsvirkjun komi að (Forseti hringir.) orkuskorti til Helguvíkur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk og ljúka ræðu sinni þegar forseti slær í bjöllu.)