Landlæknir og lýðheilsa

Þriðjudaginn 29. mars 2011, kl. 16:51:08 (0)


139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[16:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðu hans. Í framhaldi af henni langar mig að spyrja um nokkur atriði. Honum var tíðrætt um eftirlitsþáttinn, þ.e. hjá landlækni, og vitnaði m.a. í fyrirlestur sem Ingibjörg Hjaltadóttir doktorsnemi í hjúkrunarfræði hélt fyrir heilbrigðisnefnd.

Nú er það svo og ég gat þess raunar við 2. umr. málsins, að á fjölmörgum stöðum, bæði í lögum um landlækni og lögum um heilbrigðisþjónustu, er skýrt kveðið á eftirlitsþátt embættisins. Ég spurði hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins við hvaða greinar þessara laga þeir hefðu athugasemdir eða hverju þeir vildu bæta við. Breytingartillögurnar sem komu frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins við 2. umr. sneru að ráðningum og voru góðra gjalda verðar. Þær voru felldar við 2. umr. en málið kom aftur til nefndar á milli umræðna. Ég innti sérstaklega eftir því hvort þeir hygðust gera breytingartillögur við þessa þætti en svo hefur ekki orðið og engin svör komið um við hvaða þætti ætti að gera athugasemdir.

Varðandi að landlæknisembættið sinni ekki eftirlitshlutverki sínu, ef það er rétt og ég vil leyfa mér að gera fyrirvara við það, er það ekki vegna þess að valdheimildir skorti heldur fyrst og fremst vegna þess að fjármagn skortir. Við í löggjafarsamkundunni þurfum þá að beita okkur fyrir því að (Forseti hringir.) embættið fái frekari fjármuni til að geta sinnt því verkefni sínu.