Tekjuskattur

Miðvikudaginn 30. mars 2011, kl. 16:13:51 (0)


139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[16:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli því sem hv. þingmaður sagði í síðustu orðum sínum, að komið væri aftan að mönnum með þetta. Ég held að öllum hafi verið ljóst eftir að dómur féll hvernig á honum stóð og frumvarpið, eins og hæstv. fjármálaráðherra lagði það fram, tók einmitt mið af því. Það var ekki komið aftan að neinum. Það sem gerðist var að tryggingafélögin komu aftan að fólki með því að lofa því fyrir fram að þetta væri skattfrjálst. En ég ætlaði ekki að ræða það.

Mig langaði aðeins að nefna það við hv. þingmann sem lofaði og prísaði einkavædda heilbrigðisþjónustu að ég mótmæli því sem hann sagði og er ekki sammála honum um að einkavædd heilbrigðisþjónusta sé ódýrari, betri eða nær þeim sem á þurfi að halda. Ég tel að við eigum í reynd um tvennt að velja. Annað er einkarekin heilbrigðisþjónusta sem við getum horft á hvernig hefur reynst í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem fólk verður að borga fyrir þjónustuna úr eigin vasa eða kaupa sér tryggingu, eins og hér um ræðir, nema atvinnurekandinn greiði fyrir trygginguna og þegar fólk missir vinnuna missir það trygginguna. Það er ástæðan fyrir því að milljónir manna í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru án heilbrigðisþjónustu, þar á meðal milljónir barna. Hitt kerfið, sem við höfum byggt upp hér og ég vil standa vörð um en ekki fara bil beggja í þeim efnum, er heilbrigðisþjónusta sem litið er á sem grunnþjónustu sem allir hafa jafnan aðgang að óháð efnahag og sjúkdómi og fyrir hana er greitt úr sameiginlegum sjóðum — fyrir hana er greitt af skattfé. Það sem ég óttast er að verið sé að grafa undan þessu módeli, hinu norræna velferðarmódeli í heilbrigðisþjónustu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort kerfið hann telji betra.