Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 19:08:02 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Í umræðunni hefur ítrekað komið fram að ábyrgðaryfirlýsingar stjórnvalda hafi í rauninni aldrei verið settar í lög heldur hafi þær fyrst og fremst verið munnlegar, að vísu hafi yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar verið skriflegar en hins vegar hafi sá texti aldrei svo vitað sé til verið settur í lög á Alþingi.

Nú voru að berast svör við fyrirspurn frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni þar sem vísað var í að fjármálaráðuneytið hefði gengist í ábyrgð fyrir skuldabréfi vegna innstæðna sem fluttar voru frá SPRON yfir í Arion banka. Ég spyr þingmanninn hvort það samrýmist að einhverju leyti því sem hefur komið fram í umræðum, að þetta hafi aldrei verið lögbundið heldur hafi fyrst og fremst verið um munnlegar yfirlýsingar að ræða, og hvort þingmaðurinn telji ráðherrann hafa umboð til að gefa út ríkisábyrgð án þess að samþykki liggi fyrir héðan frá Alþingi.