Skuldsetning þjóðarbúsins

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 10:42:13 (0)


139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldsetning þjóðarbúsins.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er augljóst mál að þjóðarbúið réð ekki við þær erlendu skuldir sem á því hvíldu á árunum fyrir hrunið, enda fór það eins og það fór. Það jákvæða í stöðunni er að samkvæmt þeim bestu gögnum sem við höfum stefnir í að eftir að slitameðferð gömlu bankanna lýkur standi íslenska þjóðarbúið að þessu leyti til, hvað varðar erlenda skuldastöðu, miklu betur en árin fyrir hrun. Það þarf sennilega að fara yfir 20 ár aftur í tímann til að sjá erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins sem verður þá lægra hlutfall af áætlaðri landsframleiðslu gangi þessar forsendur eftir og séu þær réttar.

Það er líka jákvætt að það var mjög myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum upp á yfir 10% í fyrra og áfram spáð a.m.k. svipuðum afgangi á vöruviðskiptum næstu tvö árin sem að sjálfsögðu leggst með okkur í þessum efnum. Nettóskuldastaðan bæði hjá ríkinu sem slíku og þjóðarbúinu að lokinni slitameðferð gömlu bankanna verður þar af leiðandi að mínu mati mjög viðráðanleg, líka erlenda skuldastaðan. Það er engu að síður ljóst að við erum og verðum næstu árin verulega háð því hvaða vaxtakjör við fáum á erlendum skuldum, til að mynda þegar þær er framlengdar eða endurnýjaðar þannig að erlendar skuldir orkufyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins eru háðar vaxtaþróun á alþjóðamörkuðum og þeim kjörum sem Íslandi munu bjóðast. Ein af stærstu og mikilvægustu breytunum fyrir okkur á leiðinni út úr erfiðleikunum á komandi missirum og árum er að reyna að fá sem allra best lánskjör, að staða landsins bjóði upp á að sem minnst áhættuálag sé sett á lánin okkar þegar við tökum þau, framlengjum þau eða þjónustum erlendis. Ég geri ekki lítið úr því að sú breyta (Forseti hringir.) er mikilvæg en tölurnar eins og þær líta út og spáin eins og hún er er ekki stærsta áhyggjuefni Íslands hvað varðar það að við ráðum almennt við okkar mál.