Framhald ESB-umsóknarferlis

Mánudaginn 11. apríl 2011, kl. 15:29:04 (0)


139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

framhald ESB-umsóknarferlis.

[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get glatt Framsóknarflokkinn með því að ég tel engar líkur á því. En ég er til í að gera samning við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur: Af hverju notum við ekki nákvæmlega sömu aðferð við Evrópusambandsumsóknina og Icesave? Varðandi Icesave var ekki farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ætti að semja (Gripið fram í.) heldur var þjóðaratkvæðagreiðslan um samninginn eins og hann lá fyrir. Við skulum gera það sama varðandi Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Við skulum ljúka samningunum og leyfa íslensku þjóðinni að notfæra (Gripið fram í.) sér það sem hv. þingmenn sem hér kalla fram í hafa kallað „helgan rétt“ hennar til að taka sjálf ákvörðun um það. Leyfum þjóðinni að velja.

Ég mun sætta mig við þá niðurstöðu. Ef hún tapast mun ég bíta í skjaldarrendur og gráta svolítið en vakna upp reiður eins og einherjar í Valhöll daginn eftir. En ég held ekki að ég muni ganga í gegnum þá lífsreynslu. (Forseti hringir.) Ég held að þjóðin muni taka hinn skynsamlegri kost og velja Evrópusambandið. (Gripið fram í.)