139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fríverslunarsamningur EFTA og Serbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Serbíu.

684. mál
[16:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Enn mæli ég fyrir tillögu um heimild til ríkisstjórnarinnar til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning, að þessu sinni millum EFTA og Serbíu. Hann var undirritaður í Genf 2009. Sömuleiðis leita ég heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamning milli Íslands og Serbíu frá sama tíma.

Á undanförnum þremur árum hafa árleg verðmæti vöruútflutnings til Serbíu verið á bilinu 106–670 millj. kr. Serbía hefur reyndar orðið töluvert mikilvægur markaður fyrir afurðir úr kolmunna. Þangað flytjum við líka sælgæti og lyfjavörur. Vöruinnflutningur frá Serbíu hefur verið á bilinu frá 46–115 milljónir síðustu þrjú ár, mest hefur verið flutt inn af lyfjum. Eins og fyrri samningar kveður þessi á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu fimm ára aðlögunartímabili.

Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður.

Sérstaklega vil ég vekja eftirtekt á því, frú forseti, af því að hér inni eru áhugamenn um íslenskan landbúnað, að eftir samþykkt þessarar þingsályktunartillögu og þar með staðfestingu verður hægt að kaupa hangikjöt frá Íslandi tollfrjálst í lýðveldinu Serbíu. Það tel ég nokkur tíðindi fyrir þá sem þangað ferðast. Serbía mun sömuleiðis fella niður tolla á vatn og lifandi hross og tollar á íslenskt lambakjöt munu lækka um helming, eða úr 30% í 15%. Við fellum niður tolla á móti á ýmsar matjurtir og ávaxtasafa.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði þessari tillögu vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.