139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2011.

739. mál
[16:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er að vonum að hv. þingmaður gerir haukalóðir að umræðuefni vegna þess að forfeður okkar beggja hafa án efa stundað lúðuveiðar og haukalóðir frá vestanverðu landinu á síðustu öldum. Sannarlega hafa Færeyingar gert það. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þeir sóttu á sínum tíma mjög fast á haukalóðir til Íslands á meðan það skeið ríkti að ekki var neinn sérstakur kvóti á veiðum við Ísland. Eins og hv. þingmaður veit hefur sennilega enginn stofn dregist eins mikið saman að jafnaði og lúðustofninn á undanförnum árum. Stundum hafa menn haft áhyggjur af honum. Það er m.a. þess vegna sem ég minnist þess að bæði í umræðum hér og í utanríkismálanefnd þegar ég átti þar sæti vildu menn reisa skorður við lúðuveiðum Færeyinga. Ég þori ekki að fullyrða að nokkuð af þeim kvóta, sem er ekki mikill, sé tekinn á haukalóðir hér við land. Ég held að það sé meira og minna allt meðafli en ekki þori ég að fullyrða það. Það er nú eitthvað sem hv. þingmaður, sem á sæti í sjávarútvegsnefnd og landbúnaðarnefnd eða ætti alla vega að eiga það því að hann hefur gríðarlega þekkingu á þeim málum, gæti spurst fyrir um.

Síðan innir hv. þingmaður eftir ferðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og hv. þingmaður veit höfum við gagnkvæmt eftirlit og hlýhug gagnvart hvor öðrum. Ég þarf ekki að óttast að hann hlaupi neitt út undan sér í neinu efni án þess að láta mig vita, en það er líka gagnkvæmt. Hins vegar veit ég að hv. þingmaður er sérstakur áhugamaður um pólitísk ferðalög umrædds þingmanns og ráðherra, þannig að hann gæti kannski upplýst þingið um það.