Stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 11:55:33 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[11:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með þessa áætlun, einkum að við tökum það sérstaklega fram að við leggjum mikla áherslu á jöfnun lífsskilyrða og komum þá inn á jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun, en þessir tveir þættir hafa verið það sem staðið hefur byggð víða um land fyrir þrifum. Milli landshluta eru mismunandi búsetuskilyrði vegna þess að ekki hefur verið hugað að jöfnun í því sambandi. Ég bind miklar vonir við það átak sem kynnt hefur verið fyrir Vestfirði þar sem talað er um að vinna að jöfnun húshitunar og flutningskostnaðar. Ríkisstjórnin hefur kynnt að tillögur í þeim efnum muni koma fram á þessu ári og ég bind miklar vonir við það.