Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 13:57:21 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú veit hv. þingmaður miklu frekar en ég hve tímasetningar skipta miklu máli í lagasetningu og í sambandi við lög. Ég hefði talið að góður lögfræðingur hefði getað séð að þessu átti að breyta áður en ákært var með þingsályktun frá Alþingi. Það hefði átt að gera. Þetta mál er því klúður af því að þetta kemur fram eftir á. Ég ætlaði einmitt að spyrja hv. þingmann að því: Hvað telur hann að Mannréttindadómstóllinn muni segja um það að ákærandinn, þ.e. Alþingi Íslendinga, breyti því hvernig dómarar eru valdir? Það ákveður að núverandi dómarar skuli starfa áfram í staðinn fyrir að fara að lögum um að kjósa nýja. Hvernig lítur það út? Og getur verið — nú er ég ekki að gefa það í skyn — að einhver af núverandi dómurum sé vilhallur þeirri ákvörðun Alþingis að ákæra og refsa?