Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 14:51:17 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur hent okkur öll sem sitjum á Alþingi að segja ýmislegt í ræðustól sem við hefðum kannski mátt orða aðeins öðruvísi. Það hefur hent mig. Ég verð að segja að eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar held ég því miður að það hafi hent hann í þeirri ræðu. Ég hef aldrei talið mig vera kommúnista. Það var að sjálfsögðu ekki grímulaus aðför kommúnista (Gripið fram í.) að fyrrverandi forsætisráðherra né að öðrum þegar ég tók ákvörðun um að kæra. Þetta var mjög erfið ákvörðun, væntanlega ein af þeim erfiðustu sem ég hef tekið og ég reyndi virkilega að vanda mig við hana.

Ég hef ákveðna samúð með Sjálfstæðisflokknum og þar með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni hvað þetta mál varðar. Ég er ekkert sátt við að niðurstaðan skyldi hafa orðið sú að einn maður var ákærður. Ég lagði fram tillögu um að fjórir yrðu ákærðir og talaði fyrir því. (Gripið fram í.)

Hluti af því að taka þá ákvörðun að leggja til að Alþingi mundi ákæra fjóra menn var að fara yfir forsendurnar fyrir því og skoða önnur sambærileg mál eins og úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu, sérstaklega varðandi hið svokallaða Tamílamál. Forsendan fyrir því að sá dómur var staðfestur var að ekki voru gerðar neinar breytingar á samsetningu ríkisréttarins. Það sama er verið að gera hér, þetta er lágmarksbreyting. Það er ekki verið að gera breytingar á samsetningu dómaranna eftir að búið er að taka ákvörðun um að ákæra.