139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

fundur Evrópuþingmanna og alþingismanna -- ummæli þingmanns í fjölmiðlum -- kjarasamningar o.fl.

[14:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér var áðan kallað eftir viðhorfum stjórnarandstöðunnar til kjarasamninga. Við vitum að til að þessir kjarasamningar gangi upp og skili raunverulegri kaupmáttaraukningu þarf ýmislegt að ganga eftir, fyrst og fremst það að hér verði stóraukinn hagvöxtur. Það er gríðarlegt áhyggjuefni fyrir okkur sem þjóð að verða vitni að þeirri þróun sem hefur orðið upp á síðkastið þar sem í hverri hagvaxtarspánni á fætur annarri kemur fram að menn eru að endurskoða þessar spár til lækkunar. Það sem er áhyggjuefni í þessu sambandi er að ef raunveruleg kaupmáttaraukning á að eiga sér stað í kjölfar kjarasamninganna þarf hagvöxturinn að stóraukast og það þarf að verða mikil uppbygging á öllum sviðum. Ríkisstjórnin þvælist fyrir því öllu, ríkisstjórnin stendur í vegi fyrir því að hægt sé að hefja framkvæmdir á ýmsum sviðum. Ríkisstjórnin hefur lagt sína lamandi hönd yfir sjávarútveginn og þess vegna er ekki við góðu að búast. Það er augljóst að til að þessar bætur gangi upp gagnvart almenningi sem ríkisstjórnin heitir núna verður þessi hagvöxtur líka að eiga sér stað til að tekjuforsendur ríkissjóðs standist.

Aðeins út af þeim umræðum sem fóru fram um strandveiðarnar vek ég athygli á einu. Við vitum að strandveiðunum var upphaflega ætlað að auðvelda aðgang að greininni. Í aflamarkskerfinu, kvótakerfinu, er kvótinn fiskveiðiréttur og hefur auðvitað fengið verðgildi. Í strandveiðunum eru bátarnir fiskveiðiréttur og þeir hafa þess vegna fengið aukið verðgildi. Það er það sem við sjáum núna og verður auðvitað til þess að þær eru aðgangstakmarkandi í sjálfu sér. Við sjáum söguna endurtaka sig núna. Þeir sem seldu kvóta í ýmsum tilvikum og fóru inn í strandveiðarnar sjá sér núna leik á borði og selja bátana því að þeir hafa hækkað í verði, m.a. vegna þess sem hefur spurst út og stjórnarliðar hafa (Forseti hringir.) raunverulega staðfest, að ætlunin sé að auka fiskveiðirétt strandveiðanna. Og þá munu bátarnir hækka í verði, þá munu aðgangstakmarkanirnar aukast og þá verður til ný gerð af sægreifum.