Uppbygging Vestfjarðavegar

Miðvikudaginn 11. maí 2011, kl. 15:50:20 (0)


139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu þó að um sé að ræða langa sorgarsögu, að hafa ekki náð að ljúka skipulagningu á Vestfjarðavegi 60 og tengja þar með sunnanverða Vestfirði almennu vegakerfi og búa svæðinu sambærilegt vegakerfi og er í nánast öllum öðrum landshlutum. Það er mjög brýnt að við reynum að koma þessu máli áfram og ljúka því.

Það er búið að eyða gríðarlega miklum tíma í vandaða vinnu í sambandi við hvaða möguleikar eru í stöðunni. Ég held að menn verði að gera hreina og klára atlögu í framhaldi af þeirri samþykkt sem ríkisstjórnin gerði á fundi á Vestfjörðum þar sem undirstrikað var að þessar vegleysur á Vestfjörðum ættu að vera í forgangi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hraða þessari vinnu og leiða málið til lykta. Það er ljóst að málið hefur verið fellt í dómskerfinu en að vísu aldrei vegna umhverfisspjalla á Teigsskógi heldur út af öðrum atriðum. Það þarf að láta reyna á hvort þar sé um að ræða þau umhverfisverðmæti (Forseti hringir.) sem hefur verið sagt þannig hægt sé að ganga úr skugga um hvort B-leiðin sé fær, sem ég hef allan tímann stutt að verði farin.