Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 19. maí 2011, kl. 13:50:14 (0)


139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[13:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og oftast áður get ég verið sammála hv. þm. Pétri Blöndal. Við erum komnir svolítið út fyrir efnið þegar við erum farnir að ræða um skipulagið á starfsendurhæfingunni en ég er algjörlega sammála því að það er varasamt að búa til risastofnun sem á að sjá um þetta. Þó líður mér betur að aðilar vinnumarkaðarins, þá sérstaklega verkalýðshreyfingarinnar, skuli eiga svona mikla aðild að þessum starfsendurhæfingarsjóði. Fólk dettur út af vinnumarkaði af mjög mismunandi orsökum, sumir út af sjúkdómum sem eru í eðli sínu mjög ólíkir, og þarf að þjálfa fólk inn á vinnumarkað aftur eftir mjög ólíkum aðferðum. Þess vegna hefði ég haldið að það væri betra að vera með mörg úrræði. Það getur vel verið að starfsendurhæfingarsjóðurinn geti útvistað starfsendurhæfingu vegna þess að hér hafa verið gerðir mjög góðir hlutir, samanber Janusar-verkefnið. Ég hef sannreynt að það er mjög góð reynsla af því en ég fagna því að starfsendurhæfingarsjóðurinn sem slíkur skuli taka til starfa. Það er hárrétt hjá þingmanninum að það er óeðlilega margt fólk sem fer af vinnumarkaði á örorku sem stendur. Sumt stafar af sjúkdómum, annað af efnahagslegum ástæðum o.s.frv. Það er brýnt að við fáum einhvers konar stofnanaumgjörð til að eiga við þetta mál.