139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

brottfall laga um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

768. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa örfá orð við lok 1. umr. og byrja á því að fagna þeirri umræðu sem hefur farið fram. Umræðan hefur verið málefnalegri og skýr, sem og vilji þeirra þingmanna sem töluðu um að skilyrðislaust ætti að fella þessi lög úr gildi.

Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um óttann sem býr í brjósti manns varðandi traust til ríkisstjórnarinnar um að vinna af heilum hug í þessu máli. Það er að sjálfsögðu afar einkennilegt þegar menn, sem ganga svo hart fram gegn þjóð sinni í heil tvö ár með þrennum lagasetningum, skipta allt í einu um skoðun og telja að þeir séu hæfastir til að fara með hagsmuni þjóðarinnar eftir að búið er að fella Icesave-lögin tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við skulum vona að batnandi mönnum sé best að lifa. Nú er málið komið á forræði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Frú forseti. Ég má til með að vísa orðrétt í sexfréttir sjónvarpsins þar sem höfð eru eftir hæstv. fjármálaráðherra mjög einkennileg orð sem sýna að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru ekki tilbúnir að viðurkenna mistök sín varðandi þetta mál frá upphafi og ekki heldur tilbúnir að fagna farsælli niðurstöðu. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hagar sér í þessu máli eftir að það var leitt til lykta með farsælli niðurstöðu í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er náttúrlega sagt í ljósi þess sem kom í fréttum í dag, að úr þrotabúi Landsbankans fáist 99% upp í Icesave-reikningana. Í fréttinni er haft eftir ráðherranum, með leyfi forseta:

„Hins vegar breyti staðan engu um Icesave-deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga, né væntanlegt álit eftirlitsstofnunar EFTA á hvort Íslendingar hafi brotið EES-samninginn með því að hafa ekki fullnægjandi innstæðutryggingakerfi eða með mismunun á rétti innstæðueigenda í tengslum við skiptingu Landsbankans.“

Hér heldur hæstv. fjármálaráðherra beinlínis áfram deilunni við Breta og Hollendinga í íslenskum fjölmiðlum og það flökrar ekki að honum að taka upp hanskann fyrir íslensku þjóðina og fagna þessari niðurstöðu. Þetta er með ólíkindum. Það er eins og ráðherrann sé að vonast eftir því að ESA komi til með að dæma Íslendingum í óhag því að hann tekur upp gömul rök eins og að brotið sé á jafnræði milli aðila og landa. Það er einkennilegt hvernig hann hagar sér. Ég ætla að vísa aftur í fréttina því að aðeins seinna segir hann um andrúmsloftið í kringum samningana, þegar hann er spurður að því hvort Bretar og Hollendingar íhugi að fara með málið fyrir dómstóla í ljósi þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir um 99% endurheimtu, þá segist Steingrímur, með leyfi forseta, vona að um „minna og minna verði að slást þar sem fjárhæðirnar sem um er að ræða verði það litlar að ekki sé tilefni til milliríkjadeilu um málið. Það var auðvitað von okkar allan tímann að þegar upp yrði staðið mundi málið leysast eftir þessum farvegi og eftir að menn völdu þá leið að láta eignir Landsbankans ganga upp í þetta og veðja á það að þær eignir mundu reynast verðmætari og standa betur undir þessu en varfærin fyrstu möt gerðu ráð fyrir, það er allt að ganga núna eftir sem sannar það að menn völdu rétta leið.“

Mann setur hljóðan við að lesa upp þessi orð hæstv. fjármálaráðherra frá sexfréttum nú í kvöld. Hér kemur það fram sem sannar að menn völdu rétta leið. Eftir þrenn Icesave-lög og tvær þjóðaratkvæðagreiðslur getur hæstv. fjármálaráðherra nú komið og látið í það skína að það sé honum að þakka og ríkisstjórninni að þetta mál sé að leysast á farsælan hátt. Í hvaða heimi er þessi ráðherra? Í venjulegu lýðræðisríki væri hæstv. ráðherra tafarlaust búinn að segja af sér og skila umboði sínu bara fyrir það hvernig haldið var á málum. Svo er um að ræða fleiri mál sem hafa komið fram í ræðum þingmanna eins og endurreisn bankanna og annað. Talað var um þá skyssu sem ríkisstjórnin gerði með því að leggja ekki sjálf til að senda þessa samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var enginn vilji til þess hjá ríkisstjórninni að láta þjóðina koma að þessu máli sem leiddi til þess að forsetinn þurfti tvisvar að grípa inn í sem varð kannski líka til bóta varðandi akkúrat þjóðaratkvæðagreiðslurnar því að með inngripi forsetans urðu þær bindandi fyrir stjórnvöld. Þrátt fyrir það lét ríkisstjórnin það ekki yfir sig ganga í fyrra sinnið og hóf samningaviðræður að nýju.

Mig langar að nefna viðtal við formann skilanefndar Landsbankans sem birtist í kvöldfréttum RÚV kl. 6 þar sem farið var yfir endurheimtur búsins. Um 60% af endurheimtum búsins er í formi reiðufjár og skuldabréfa í nýja Landsbankanum og afgangurinn er lán eða eignir en stærst þeirra eigna er tveir þriðju hlutabréfa í bresku verslanakeðjunni Iceland sem skilanefndin ætlar að selja. Mig langar að minnast á varðandi þessi 60% sem eru í formi reiðufjár og skuldabréfa í nýja Landsbankanum að nú þegar hefur hæstv. fjármálaráðherra reitt af hendi 280 milljarða í erlendum gjaldeyri fyrir Icesave-reikningana sem liggur sem nýtt hlutafé í nýja Landsbankanum. Þegar hefur farið fram greiðsla á þessu. Þrátt fyrir að Landsbankinn komi kannski ekki til með að geta staðið skil á því, miðað við fréttir um daginn af gjaldeyrisþurrð, þá skulum við ekki gleyma því að Landsbankinn er í ríkisábyrgð. Fjármálaráðherra hefur því raunverulega gengist við ábyrgð á þessum greiðslum. Það hefur svolítið týnst í umræðunni. Það sem kom kannski mest á óvart þegar verið var að endurreisa gamla Landsbankann á ný var að hann fékk hið handónýta evrópska vörumerki „Landsbankinn“ upp á nýtt. Ég spyr: Hverjum þjónar það að skíra bankastofnun sem á að vera í eigu landsmanna því ónýta nafni? Ég hef spurt mig að því síðustu vikur og það er engu líkara en að baki standi einhver skuggastjórnandi að ríkisbankanum sjálfum, svo mikil áhersla var lögð á þetta nýja nafn í stað þess að reyna að moka yfir fortíðina.

Ástæðan fyrir því að þetta lagafrumvarp var lagt fram eru ákvæði í lögum nr. 13/2011, þeim lögum sem við köllum Icesave 3. Það er nefnilega pósitíft ákvæði í 3. gr. þeirra laga sem mig langar að lesa upp til að taka af allan vafa um að það var skilningur ríkisstjórnarinnar að lög nr. 96/2009 væru í gildi ef Icesave 3 yrði samþykkt. Í 3. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta:

„Lög nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., falla brott.“

Þetta er alveg skýrt. Þarna er pósitíft ákvæði inni í heilli lagagrein um að ríkisvaldið líti svo á að Icesave 1 sé í gildi. Sá skilningur að lögin séu enn í gildi skýrist enn frekar þegar lesin er umfjöllun um 3. gr. í greinargerð fjármálaráðuneytisins því að þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt hinum nýju samningum falla eldri samningar um lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta niður.“ — Þarna er pósitíft ákvæði um að samningarnir séu virkir. — „Ekki kemur því til þess að reyni á heimildir samkvæmt lögum nr. 96/2009, eins og þeim var breytt með lögum nr. 1/2010.“ — Þ.e. fyrri lögunum sem voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan segir: „Í þessari grein er því lagt til að lög nr. 96/2009 falli brott, en lög nr. 1/2010 hafa þegar verið numin úr gildi, samanber auglýsingu nr. 15/2010.“

Fyrirvaralögin voru því felld úr gildi og þá lítur ráðuneytið svo á að með því hafi lög nr. 96/2009 aftur tekið gildi. Nú hefur þjóðin sem betur fer fellt lög nr. 13/2011, Icesave 3, úr gildi. Ég þakka öllum landsmönnum sem tóku þátt í þeirri kosningu kærlega fyrir þann dug sem þeir sýndu með því að láta ekki hræða sig til hlýðni af þessari verklausu ríkisstjórn. Ég þakka forsetanum jafnframt fyrir. En nú þurfum við að binda enda á þetta Icesave-mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar því að ekki stendur hún vörð um hagsmuni þjóðarinnar og láta það í forgang að þessi lög verði felld úr gildi. Nú fer þetta til hv. fjárlaganefndar og vonandi kemur málið sem fyrst til þingsins eftir nefndarviku og verður afgreitt sem lög frá Alþingi þannig að Icesave 1, Icesave 2 og Icesave 3 verði þar með út úr heiminum fyrir okkur og Icesave 1 hverfi að fullu úr lagasafninu eins og varð um örlög Icesave 2 og Icesave 3 í þjóðaratkvæðagreiðslu.