Aðgerðir fyrir skuldug heimili

Föstudaginn 27. maí 2011, kl. 13:36:49 (0)


139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

aðgerðir fyrir skuldug heimili.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Allir voru sammála um það þegar við fórum í síðustu aðgerðirnar sem margir komu að að ekki væri skynsamlegt að gefa væntingar um að það væri alltaf von á meira og meira fyrir skuldug heimili sem varð til þess að þau nýttu sér ekki þau úrræði sem voru fyrir hendi. Ég hef orðið vör við að ýmsir vita ekki af þeim úrræðum sem eru fyrir hendi en margir hafa hins vegar nýtt þau þegar þeim hefur verið sagt frá þeim og það hefur bjargað þeim.

Við verðum að vona að þetta dugi. Við fylgjumst auðvitað mjög grannt með því hvort hægt sé að gera betur og fylgjumst vel með stöðu heimilanna.

Að því er varðar atvinnuleysi veit hv. þingmaður að það er minna en menn bjuggust við. Við stefnum að því að það verði helmingi minna eftir kjarasamningatímann en það er núna. Varðandi þá verðbólguhækkun sem er núna er hún vissulega upp á 1 prósentustig en við erum að vona að þetta sé einungis verðbólguskot sem megi aðallega rekja til hækkunar á heimsmarkaðsverði (Forseti hringir.) á olíu og á húsnæðiskostnaði. Það er margt sem bendir til þess.