Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 11:12:22 (0)


139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Viðskiptanefnd stendur að flutningi þessarar tillögu og er það samkomulag sem við komumst að í gær.

Ég vil hins vegar í þessari ræðu leggja mjög mikla áherslu á mikilvægi þess að við vinnum þetta mál áfram í sumar og í haust þó að frumvarpið sjálft verði ekki afgreitt á þessu þingi heldur verði tekið aftur fyrir á nýju löggjafarþingi.

Í því framhaldsnefndaráliti sem ég var búin að skrifa og hafði hugsað mér að flytja við 3. umr. voru ýmsir punktar sem ég lagði áherslu á og taldi nauðsynlegt að innleiða samhliða því að við mundum koma á innstæðutryggingakerfinu. Það hefur verið komið til móts við að minnsta kosti einn af þeim punktum eftir að athugasemdir bárust frá Seðlabanka Íslands um mikilvægi þess að innstæðutryggingarsjóðurinn mundi bara borga út í íslenskum krónum til að draga úr gengisáhættunni. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af gengisáhættunni sem felst í því að tryggja innstæður að 100 þús. evrum í íslenskum krónum.

Hvort sem banki er stór eða meðalstór, jafnvel lítill, í samfélagi okkar getur hann að sjálfsögðu haft mikil áhrif, ekki bara á útgreiðslur úr innstæðutryggingarsjóðnum heldur líka á íslenska gengið þannig að það væri ekki nóg með að stjórnvöld og innstæðutryggingarsjóðurinn væru að fást við það að geta dekkað innstæðurnar heldur væru þau um leið að fást við hrun í genginu. Þessar áhyggjur hafa líka komið fram í vinnslu Evrópuþingsins um breytingu á tilskipun um innstæðutryggingarsjóðinn. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér hafa komið fram að minnsta kosti tvær breytingartillögur þess efnis að upprunalega frumvarpið inn á Evrópuþingið sagði að innstæður ætti að borga út í þeirri mynt sem innstæðan er í. Þar með er komin þarna undirliggjandi gengisáhætta.

Síðan hafa komið fram tvær breytingartillögur, annars vegar um að það sé settur upp einhvers konar valmöguleiki, það megi borga út í viðkomandi mynt, eins og upprunalega tillagan var, eða í mynt viðkomandi ríkis. Mér skilst núna að það hafi komið upp, ég veit ekki hvort það er forseti eða formaður viðkomandi nefndar sem fjallar um þetta og hefur nú komið fram með tillögu um að innstæður eigi að vera greiddar í mynt þess lands sem innstæðutryggingarsjóðurinn er í.

Það sem ég legg áherslu á, og það er ástæðan fyrir því að ég vildi koma hérna upp og fá þetta fært til bókar, er að við þurfum að fylgja þessu eftir. Efnahags- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra þurfa að koma á framfæri áhyggjum okkar Íslendinga og reynslu. Ég held að engin önnur þjóð hafi jafnmikla reynslu af áhrifum innstæðutrygginga og við Íslendingar. Við eigum ekki að sitja á þeim reynslupakka í Norður-Atlantshafinu heldur verðum við að koma reynslunni á framfæri. Við höfum möguleika á því, við getum sagt að það sé meðal kosta þess að vera umsóknarríki að við höfum núna meiri möguleika á að koma áhyggjum okkar á framfæri. Það þarf að gera í þessu máli því að þetta er stórmál.

Að öðru leyti vísa ég til þeirra punkta sem ég hef viðrað og áhyggna af því frumvarpi sem liggur fyrir og treysti því að það verði unnið þverpólitískt og ötullega í sumar að því að bæta frumvarpið og leggja fram nauðsynlegar breytingar á öðrum lögum til að við getum raunverulega sagt að við höfum einhverja möguleika á því að tryggja íslenskar innstæður.