Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 31. maí 2011, kl. 11:18:54 (0)


139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

864. mál
[11:18]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér ræðum við enn eitt frumvarpið um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og það frumvarp sem við ræðum er eiginlega bráðabirgðalausn. Fyrir þinginu hafa síðustu tvo vetur legið mál um að stofna í tryggingarinnstæðusjóðnum sem er til nú þegar nýja deild sem væri sjálfstæð og tæki við nýjum innstæðum og ætti að verja framtíðarbankakerfið. Það hefur verið mjög langt á milli aðila og sjónarmiða í því máli. Ég er ein þeirra sem hafa talið að þetta væri eins og að stofna tryggingafélag með þremur greiðendum því að við erum með þrjá stóra viðskiptabanka.

Ég er ánægð með þessa bráðabirgðalausn svo langt sem hún nær en það er tilgangslaust að fresta þessu máli ef ekki á að vinna raunverulega í því í sumar og fram á haustið og leggja fram betri útfærslur sem við getum öll sætt okkur við og sem byggja á lærdómi okkar af hruninu og Icesave-málinu og öllu því sem við höfum gengið í gegnum síðan í október 2008. Í trausti þess að farið verði í þá vinnu sameiginlega styð ég þetta mál. Ég vil einnig taka undir með þeim þingmanni sem talaði á undan mér, Eygló Harðardóttur, og þær ábendingar sem hún kom með. Ég ætla svo ekki að lengja þessa umræðu.