Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 11:06:59 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ég viðurkenni mikilvægi og rétt markaðarins á hann ekki alfarið að ráða hvernig þróun fiskveiða og þróun byggða þróast. Þar erum við ósammála. Ég tel ekki að við eigum að markaðsvæða byggðir landsins þar sem ein þeirra geti lotið í gras án þess að íbúarnir hafi nokkuð um það að segja — þó að hún sé stödd við hin fengsælustu fiskimið rétt undan ströndum landsins. (Gripið fram í.) Það er hárrétt að þar greinir okkur á.

Það að byggja upp kerfi sem skilgreinir að hluti þess taki tillit til þessara félagslegu þátta þýðir alls ekki að það verði óarðbærara. Er arðbært að leggja niður heilt byggðarlag og gera eignirnar þar verðlausar? Verður ekki sjávarútvegurinn þá líka að axla byrðarnar af því þegar verið er að reikna hagkvæmnina? Hins vegar verður líka hluti áfram í því formi sem (Forseti hringir.) hér hefur verið nefnt.

Ég tel að hv. þingmaður ætti að hverfa frá þessari algeru markaðshyggju og taka þátt í (Forseti hringir.) þeirri uppbyggingu á sjávarútveginum sem við leggjum til.